Magnús og Ísak með silfurverðlaun á Íslandsmótinu í parakeppni í keilu

Íslandsmótið í tvímenningi í Keilu fór fram í Egilshöll dagana 4.-5. nóvember s.l. Alls tóku 17 pör þátt og 4 þeirra voru frá Keilufélagi Akraness. 

Í tvímenningi eru keppnisbrautirnar með mismunandi olíuburði og reynir það á kænsku og leikskilning keppenda. 

Eftir forkeppni komust 10 pör áfram í milliriðil og þar af 3 pör frá ÍA. Í undanúrslitum léku 2 pör frá ÍA.  

Magnús Sigurjón Guðmundsson og Ísak Birkir Sævarsson léku til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn. 

Mótherjar þeirra voru Mikael Aron Vilhelmsson og Aron Hafþórsson úr Keilufélagi Reykjavíkur. Mikael Aron og Aron tryggðu sér gullverðlaunin með 3-2 sigri og Skagamennirnir enduðu í öðru sæti. 

Matthías Leó Sigurðsson og Tómas Garðarsson frá Keilufélagi Akraness enduðu í 7.sæti í þessu móti. 

Þess má geta að Magnús náði 300 stigum í undanúrslitunum – sem er hæsta skor sem hægt er að ná í einum leik í keilu. 

Matthías Leó Sigurðsson og Tómas Garðarsson í 7.sæti.

Vilborg Lúðvíksdóttir og Særós Erla Jóhönnudóttir frá ÍA tóku þátt í forkeppninni og stóðu sig vel líkt og allir keppendur frá ÍA.