„Blótað“ í íþróttahúsinu við Jaðarsbakka

Bæjarráð Akraness samþykkti á fundi sínum þann 16. nóvember s.l. að veita Sjötíu og níu menningarfélag á Akranesi leyfi þess efnis að Þorrablót Skagamanna 2024 fari fram í íþróttahúsinu við Jaðarsbakka.

Viðburðurinn getur ekki farið fram í íþróttahúsinu við Vesturgötu líkt og á undanförnum árum. Íþróttasalnum var lokað í september vegna loftgæðavandamála – og umfangsmiklar endurbætur og viðgerðir eru fyrirhugaðar í salnum á næstu misserum.

Í fundargerð bæjarráðs kemur fram að ráðið telur mikilvægt í ljósi sérstakra aðstæðna varðandi Íþróttamannvirki Akraneskaupstaðar að röskun á skipulagi íþróttastarfs að Jaðarsbökkum verði sem minnst í aðdraganda viðburðarins.

Þorrablót Skagamanna 2024 verður það 14. í röðinni. Það verður haldið laugardaginn 20. janúar í íþróttahúsinu við Jaðarsbakka.

Blótið fór fram í fyrsta sinn árið 2011 í íþróttahúsinu við Jaðarsbakka og það var einnig haldið á Jaðarsbökkum árið 2012.