Lýsa yfir vonbrigðum með áætlað leiguverð íbúða hjá Leigufélagi aldraðra

Í nýjustu fundargerð Velferðar – og mannréttindaráðs Akraness kemur fram að ráðið lýsir yfir vonbrigðum með áætlað leiguverð íbúða hjá Leigufélagi aldraðra.  

Samkomulag Akraneskaupstaðar og Leigufélags aldraðra um útleigu íbúða á Dalbraut 6 er í burðarliðnum. Á fundi ráðsins voru lagðar fram upplýsingar um áætlað leiguverð til kynningar og umræðu.  Eftir þá kynningu lýsti  velferðar- og mannréttindaráð yfir vonbrigðum ráðsins með það leiguverð sem Leigufélag aldraðra hefur upplýst um í leiguíbúðum fyrir aldraðra að Dalbraut 6.

Vísar velferðar- og mannréttindaráð til upplýsinga um samanburð við fermetraverð annarra leigufélaga, en það fermetraverð sem Leigufélag aldraðra stillir fram er töluvert hærra en annarra óhagnaðar- og hagnaðardrifinna leigufélaga.

„Velferðar- og mannréttindaráð hvetur Leigufélag aldraðra til að endurskoða leiguverðið og að það verði til samræmis við leiguverð annarra óhagnaðardrifinna leigufélaga með starfsemi á Akranesi,“ segir m.a. í bókun ráðsins. 

Þann 20. apríl 2021 var tekin fyrsta skóflustunga að 31 íbúð ásamt bílakjallara sem Leigufélag aldraðra hses byggir að Dalbraut 6. Um er að ræða 22 tveggja herbergja íbúðir og 9 þriggja herbergja íbúðir.

Leigufélag aldraðra er húsnæðissjálfseignarstofnun sem byggir hagkvæmar íbúðir til leigu fyrir eldri borgara og starfar samkvæmt lögum um almennar íbúðir. Lögin gera ráð fyrir bæði hagkvæmni í byggingu en einnig stofnframlögum frá ríki og sveitarfélagi til að leiga verði hagstæðari en ella. Lögin gera einnig ráð fyrir ákveðnum viðmiðunum í tekjum og eignum hjá væntanlegum leigjendum.