Skipulags – og umhverfisráð leggur það til við bæjarstjórn Akraness að gengið verði til samninga við Basalt arkitekta varðandi deiliskipulagsvinnu á Jaðarsbakkasvæðinu.
Þetta kemur fram í fundargerð skipulags – og umhverfisráðs.
Ráðið mun bjóða framkvæmdastjóra og fulltrúa stjórnar ÍA og KFÍA (2 aðilar frá hvoru félagi) að sitja fundi skipulags- og umhverfisráðs sem áheyrnarfulltrúar reglulega undir þessum málslið, þar til skipulagsvinna klárast.
Þann 23. október s.l. voru þrjár hugmyndir kynntar um framtíðaruppbyggingu á Jaðarsbakkasvæðinu á fjölmennum íbúafundi í Bíóhöllinni.
Basalt átti þar eina hugmynd en fyrirtækið hefur komið að uppbyggingarverkefnum á Akranesi – og þar er Guðlaug við Langasand stærsta verkefnið. Basalt hannaði mannvirkið sem hefur vakið mikla athygli frá því það var opnað.
Í mars á þessu ári skrifuðu Akraneskaupstaður, Ísold fasteignafélag, Íþróttabandalag Akraness (ÍA) og Knattspyrnufélag Akraness undir viljayfirlýsingu um uppbyggingu við Langasand.
Þar er m.a. gert ráð fyrir hóteli, baðlóni og heilsulind á svæðinu. Gert var ráð fyrir íbúðabyggð þegar samkomulagið var undirritað en fallið hefur verið frá þeirri hugmynd.