Þessa dagana eða frá 25. nóvember til 10. desember stendur yfir alþjóðlegt átaksverkefni Soroptimista sem ber nafnið „Roðagyllum heiminn“ en með átakinu vilja samtökin vekja athygli á kynbundnu ofbeldi gegn konum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu. 

Sameinuðu þjóðirnar völdu 25. nóvember til að varpa ljósi á að ofbeldi gegn konum er alþjóðlegt vandamál sem kemur upp í öllum samfélögum og menningarheimum.  

Ofbeldi gegn konum er aldrei einkamál heldur samfélagslegt vandamál sem hefur áhrif á milljónir kvenna. Fjöldi tilkynntra ofbeldisverka gegn konum og stúlkum jókst um allt að 83% í tólf ríkjum sem Sameinuðu þjóðirnar fylgdust sérstaklega með 2019 til 2020.

Ofbeldi má gjarnan flokka í sex flokka, andlegt, líkamlegt, kynferðislegt, fjárhagslegt og stafrænt ofbeldi og það sem kallað er eltihrellir. Mikilvægt er að beina ahyglinni að forvörnum, við þurfum öll að þekkja rauðu aðvörunarljósin til að geta brugðist við í tíma og einnig þekkja hvert við getum sótt okkur aðstoð. Góðar upplýsingar er að finna á www.112.is. 

Soroptimistar um allan heim leggja lóð á vogarskálarnar til að vinna gegn kynbundnu ofbeldi, helst með því að fræða konur um alvarleika og birtingarmyndir kynbundins ofbeldis en einnig að vekja samfélög til meðvitundar um þetta vandamál með því að „roðagylla heiminn“. #roðagyllumheiminn, #orangetheworld.

Soroptimistaklúbbur Akraness hefur um árabil tekið þátt í að vekja athygli á þessari baráttu. Haft samband við fyrirtæki á Akranesi um að lýsa upp byggingar og staði með rauðgulum lit sem er litur átaksins en liturinn er tákn um bjartari framtíð án kynbundins ofbeldis.  Markmið sextán daga átaksins er að beina athyglinni að alvarleika kynbundins ofbeldis, fræða almenning og hvetja til að ofbeldið verði stöðvað. Til þess þarf vitundarvakningu. Eitt af markmiðum Soroptimistahreyfingarinnar er að bæta stöðu kvenna og stúlkna í heiminum og mikilvægur þáttur í því er að vekja athygli á og sporna gegn ofbeldi á konum.

SOROPTIMISTAR SEGJA NEI VIÐ OFBELDI