Tilnefningar til Íslensku glæpasagnaverðlaunanna Blóðdropans og Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2023 voru kynntar í dag í Eddu, við Arngrímsgötu 5.
Skagakonan Eva Björg Ægisdóttir er tilnefnd til íslensku glæpasagnaverðlaunanna Blóðdropans fyrir bók sína Heim fyrir myrkur.
Í umsögn um bókina segir:
„Vel sögð saga með fjölbreyttu, breysku persónugalleríi og slunginni atburðarás. Sögusviðið er áhugavert og sagan er í senn glæpa- og spennusaga, sálfræðitryllir, fjölskyldudrama og íslensk samfélagslýsing á seinni hluta síðustu aldar. Höfundur sáir fjölda efasemda í hug lesanda þannig að hann grunar allt og alla söguna á enda.“
Verðlaunin verða afhent af forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, í lok janúar á næsta ári –
Verðlaunaupphæðin er ein milljón króna fyrir hvert verðlaunaverk. Félag íslenskra bókaútgefenda kostar verðlaunin.
Íslensku bókmenntaverðlaunin voru fyrst veitt 1989 og er ætlað að draga fram athyglisverðustu útgáfubækur hvers árs. Þetta er í 35. sinn sem tilnefnt er til verðlaunanna.
Félag íslenskra bókaútgefenda gerði samkomulag við Íslenska glæpafélagið árið 2022 um að taka yfir verklega framkvæmd íslensku glæpasagnaverðlaunanna Blóðdropans ásamt því að kosta verðlaunin með sama hætti og Íslensku bókmenntaverðlaunin. Líkt og áður verður handhafi Blóðdropands framlag Íslands til norrænu glæpasagnaverðlaunanna Glerlykilsins.