Pistill: Bæjarstjórn glatar trausti

Aðsend grein frá Halldóri Jónssyni, sem er formaður notendaráðs um málefni fatlaðs fólks á Akranesi:

Eitt það verðmætasta sem hægt er að öðlast er traust. Það er ekki áskapað heldur áunnið með framkomu og verkum hvers og eins. 

Á fimmta ár er nú síðan fatlað fólk á Akranesi missti einn helsta miðpunkt tilveru sinnar í eldsvoða. Fjöliðjan rammar í nafni sínu hversu víðfemu hlutverki hún gegndi og gegnir í daglegu lífi okkar minnstu bræðra og systra. Miðpunkturinn sjálfur var á einu augabragði kominn á hrakhóla. 

Endurreisnin hafin

Með góðra manna hjálp tókst að finna bráðabirgðahúsnæði og æ síðan hefur bæjarstjórn Akraness hugað að framtíðarlausn í kjölfar þessa mikla missis. Sú lausn skyldi taka eins skamman tíma og framast var unnt.

Fyrstu misserin mótuði hópur fagfólks hugmyndir að endurbyggingu þeirrar byggingar er brann og stækkun hennar. Á lokastigi þeirrar vinnu mættu þær hugmyndir pólitískri andstöðu innan bæjarkerfisins. Eftir mikið jaml,  japl og fuður varð að lokum samstaða í bæjarstjórn um aðrar leiðir en áðurnefndur faghópur hafði lagt til. 

Samfélag án aðgreiningar

Undir merkjum framsýni, metnaðar og umfram allt samfélags án aðgreiningar skyldi reisa svokallaða Samfélagsmiðstöð sem hýsa skyldi ólíka hópa sveitarfélagsins. Að auki skyldi reist önnur bygging er hýsa skyldi starfsemi áhaldahúss bæjarins, Búkollu nytjamarkað og endurvinnslu Fjöliðjunnar. Með sannfæringarkrafti traustvekjandi bæjarfulltrúa og loforðum um stuttan framkvæmdatíma tókst um síðir að skapa um þessa leið bærilega sátt í samfélaginu. 

Óneitanlega voru þó uppi raddir sem töldu óvarlegt að treysta um of á loforð stjórnmálamanna og bentu á þá áhættu sem fólgin væri í aðkomu ólíkra aðila að uppbyggingu húss þess er hýsa  skyldi Samfélagsmiðstöðina. Með nánu samstarfi og samráði við fagfólk og stuðningi Notendaráðs er hönnun beggja þessara verkefna nú á lokastigi. 

Viðsnúningurinn

Þegar komið var að framkvæmdum gerðust óvæntir hlutir. Nánast á einni nóttu, án samráðs við nokkra er áður höfðu komið að málum lögðu bæjarfulltrúar til að vísa allri þessari uppbyggingu langt inn í framtíðina. Er leitað var skýringa einstakra bæjarfulltrúa voru þær afar misjafnar og um síðir var skýringin sú að þeir hefðu fengið svo mörg verkefni í fangið að undaförnu að eitthvað þyrfti undan að láta. Þá var auðvitað einfaldast, að þeirra mati,  að setja aftast í röðina verkefnið sem lengst hafði verið í fangi bæjarstjórnar og þar sem á í hlut viðkvæmasti hópur bæjarfélagsins.  Sá hópur er heldur ekki fyrirferðarmikill á stjórnmálafundum eða öðrum mannamótum. 

Niðustaðan dapurlega

Bæjarstjórn Akraness samþykkti að lokum framkvæmdaáætlun til næstu ára á fundi sínum þann 12.desember. Forgangsröðin í hugum 7 bæjarfulltrúa var skýr. Bæjarfulltrúarnir Einar Brandsson og Kristinn Hallur Sveinsson einir vildu standa með sjálfum sér, verkum sínum og loforðum og sátu hjá. Með hjásetu þeirra þurfti meirihluti Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingar því liðsinni Framsóknar til þess að komast að þessari dapurlegu niðurstöðu. 

Samfélag forréttindahópa

Það var afar sorglegt að hlusta á umræður bæjarfulltrúa áður en ákvörðunin var tekin. Akranes væri samfélag sóknar og hér drypi smjör af hverju strái en samt þyrfti að fara ofurvarlega í framkvæmdum og því nauðsynlegt að fresta marglofaðri uppbyggingu Fjöliðjunnar. Steininn tók þó úr þegar bæjarfulltrúar nefndu að ef birta myndi til þá væri ekki útilokað að flýta aftur framkvæmdum. Aðeins ef birti til kæmi til greina að efna þessi loforð. Akranes er því ekki samfélag án aðgreiningar. Við erum samfélag forréttindahópa. Aðrir skulu vera á hrakhólum áfram. 

Að glata trausti

Að skapa traust af verkum sínum tekur langan tíma. Það er hins vegar hægt að glata því á augabragði. Það hefur meirihluti bæjarstjórnar Akraness nú sýnt og sannað. 

Halldór Jónsson

Höfundur er formaður notendaráðs um málefni fatlaðs fólks á Akranesi.