Fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar fyrir árið 2024 og þriggja ára áætlun 2025-2027 var samþykkt á fundir bæjarstjórnar þann 12. desember 2023.
Haraldur Benediktsson bæjarstjóri Akraneskaupstaðar segir að hækkandi vaxtastig og verðbólga hafi áhrif á tekjuhlið rekstrar sveitarfélagsins. Fjárhagsáætlun ársins 2024 er því varfærin og tekur mið af óvissu um þróun efnahagsmála.
Fjárhagur Akraneskaupstaðar hefur um langt árabil skilað afgangi, en á síðasta ári var í fyrsta sinn í langan tíma halli á rekstri bæjarins. Því er nú lögð sérstök áhersla á varfærni og ábyrgð í áætlunargerð með það að markmiði að styrkja stoðir fjárhags sveitarfélagsins enn frekar.
Nánar á vef Akraneskaupstaðar:
Helstu atriði fjárhagsáætlunar 2024 eru:
- Gert er ráð fyrir óbreyttu útsvari á árinu 2024, eða 14,74%.
- Gjaldskrár hækka um 7% fyrir utan sérstakar ákvarðanir í einstaka gjaldskrám.
- Álagningarprósentur fasteignaskatta verða 0,2467% fyrir íbúðarhúsnæði og 1,4678% fyrir atvinnuhúsnæði.
- Lóðarleiga af nýjum lóðum og endurnýjuðum samningum verður 1,199% af fasteignamatsverði atvinnulóða og 0,3034% af fasteignamatsverði íbúðarhúsalóða
Meðal fjárfestinga- og uppbyggingaverkefna á árinu 2024:
- Menntun og frístundamál: Endurbætur á Brekkubæjarskóla munu halda áfram, þar sem 1 hæð skólans verður að mestu leyti endurnýjuð. Ennfremur mun framkvæmdir við endurbætur á C álmu Grundaskóla halda áfram af fullum krafti.
- Íþróttir: Uppsteypu við nýtt íþóttahús á Jaðarsbökkum er lokið. Nú tekur við innri frágangur og lóðaframkvæmdir, ásamt undirbúningi að kaupum á lausum búnaði. Endurbætur á íþróttasal við íþróttahúsið á Vesturgötu vegna loftgæðavandamála eru í gangi og stefnt að því að þeim ljúki næsta haust.
- Velferð og mannréttindi: Stefnt er að því að bjóða út byggingarrétt á Dalbraut 8 á árinu. Í húsinu er reiknað með að verði 43 íbúðir fyrir ofan fyrstu hæð þess. Á fyrstu hæðinni er reiknað með Samfélagsmiðstöð sem mun hýsa starfsemi Fjöliðjunnar (hæfingarhluti), Þorpsins og Hver Starfsendurhæfingarmiðstöðvar.
Uppbygging á nýjum íbúðakjarna með 6 íbúðum mun hefjast á árinu.
- Götur og stígar: Gatnaviðgerðir eru fyrirhugaðar við Kalmansvelli ásamt því sem stefnt er að klára hönnun vegna breytinga á Kirkjubraut (milli Stillholts og Merkigerðis). Ný gatnagerð verður fram haldið í Flóahverfi og Skógarhverfi auk þess sem byrjað verður á frekari gatnagerð við Sementsreit. Nýframkvæmdir vegna gangastétta munu halda áfram í Skógahverfi í takt við uppbyggingu hverfisins.
- Atvinnutengd verkefni: Fyrirhuguð er áframhaldandi sókn í atvinnuuppbyggingu í samstarfi við þróunarfélögin á Breið og Grundartanga í formi frekari styrkingu rannsóknar- og nýsköpunarstarfsemi sem félögin styðja þétt við. Jafnframt er fyrirhuguð uppbyggingu græns iðngarðs með hringrásarhugsun á Grundartanga, en Þróunarfélagið á Grundartanga og fyrirtæki á svæðinu hafa undirritað viljayfirlýsingu þess efnis. Verið er að skipuleggja Jaðarsbakkasvæðið þar sem stefnan er að rísi hótel, baðlón og heilsulind, en þetta verkefni verður unnið áfram í samstarfi við ÍA, KFÍA og Ísold Fasteignafélag ehf. Fyrirhugað er að stofna miðlæga einingu fyrir Græna iðngarða í Flóahverfi, t.d. í formi klasafélags, sem mun leiða verkefni sem tengjast sameiginlegum rekstri fyrirtækja í iðngörðunum.