Þrettán eru tilnefnd í kjörinu á Íþróttamanni Akraness 2023 – þú getur tekið þátt í kosningunni

 

Kjörinu á Íþróttamanni Akraness árið 2023 verður lýst þann 6. janúar 2024 í íþróttamiðstöðinni Garðavöllum við golfvöllinn. Bein útsending verður frá athöfninni á ÍATV. 

Íbúar á Akranesi geta tekið þátt í kosningunni – sem hófst í dag og stendur til 4. janúar. Smelltu hér til að kjósa:

Alls hafa konur verið kjörnar Íþróttamaður Akraness alls 24 sinnum en karlar hafa verið efstir í þessiu kjöri í 23 skipti.

Fyrst var kosið árið 1965 en frá árinu 1977 hefur kjörið farið fram árlega. Ríkharður Jónsson var sá fyrsti sem var kjörinn en það liðu sjö ár þar til kosið var á ný.

Sundíþróttin er með 21 titlil á þessu sviði en golfíþróttin er með 11 titla og í þriðja sæti eru fulltrúar knattspyrnunni með 10 titla.

Alls eru þrettán einstaklingar sem koma til greina í kjörinu í ár. Þau eru: 

Anita Hauksdóttir er tilnefnd til til kjörs í vali um íþróttamann Akraness árið 2023 frá Vélhjólafélagi Akraness.

Aníta var ríkjandi íslandsmeistari í mótorkrossi og enduro þegar árið 2023 gekk í garð. Aníta hefur æft motorkross og enduro í 23 ár eða frá 10 ára aldri.

Hún hefur unnið til fjölda verðlauna í sínum flokki keppnisárið 2023 og endaði með fullt hús stiga í mótorkrosskeppni og þar með íslandsmeistari kvenna árið 2023 eins og náði því að verja titilinn sinn.

Eins varð liðið hennar liðameistarar kvenna í motocrossi árið 2023. Anita er mikil keppnismanneskja og góð fyrirmynd fyrir aðra iðkendur hjá félaginu, félgið er stolt að hafa hana innan sinna vébanda.

Aníta Sól Ágústdóttir er tilnefnd til kjörs í vali um íþróttamann Akraness árið 2023 frá Knattspyrnufélagi ÍA.

Aníta Sól er reynslumikill leikmaður sem hefur verið ein af lykilleikmönnum ÍA síðustu ára en hún á yfir 150 leiki fyrir félagið.

Síðasta keppnistímabil var stórt fyrir Anítu eins og meistaraflokk kvenna allan, en liðið komst upp úr 2.deild og mun spila í 1.deildinni á næsta keppnistímabili. Aníta spilaði þar alla 20 leiki liðsins og allar mínútur sem staðfestir það hve mikilvæg hún er og algjör lykilleikmaður. Aníta er gríða sterk og fljót sem varnarmanneskja með góðan spyrnufót ásamt því að hafa góðan leiksskilning.

Aníta Sól leggur sig alltaf 100% fram og er sínu liði, liðsfélögum og klúbbi til miklis sóma. Hún er frábær fyrirmynd fyrir yngri iðkendur og það er okkur sannur heiður að hafa hana í okkar liði.

Beníta Líf Palladóttir er tilnefnd til kjörs í vali um íþróttamann Akraness árið 2023 frá Klifurfélagi Akraness.

Beníta Líf hefur tekið þátt í öllum klifurmótum sem haldin hafa verið á Íslandi í ár og komist í úrslit. Bestum árangri hefur hún náð í línuklifri en þar má helst nefna að hún varð Bikarmeistari í sínum aldursflokki.

Hún keppti á Íslandsmeistaramóti opnum flokki og sínum aldursflokki og náði þar góðum árangri. Auk þess fór Beníta á Norðurlandamót í línuklifri með ágætum árangri.

Beníta Líf leggur sig fram við að ná enn betri árangri á komandi árum og leggur hún mikinn metnað í æfingar og keppnir. Hún stefnir á Norðurlanda og Evrópumót á komandi ári.

Björn Jónatan Björnsson er tilnefndur til kjörs í vali um íþróttamann Akraness árið 2023 frá Hnefaleikafélagi Akraness.

Björn Jónatan Björnsson stimplaði sig inn sem einn efnilegasti hnefaleikamaður á landinu á síðastliðnu ári. Var hann valinn í landsliðið í byrjun árs, einungis voru tveir valdir í sama aldurhóp í landsliði og hvar hann annar þeirra.

Auk þess að taka þátt í öllum ungmennamótum sem í boði voru, varð Jónatan Bikarmeistari í -66kg flokki og keppti einnig á sterku boðsmóti í Danmörku í -60kg flokki. Í Danmörku keppti hann við tvo andstæðinga sem voru töluvert reynslu meiri en hann. Hann sigraði andstæðing sinn í undanúrslitum, en tapaði naumlega eftir klofna dómara ákvörðun í úrslitum og kom heim með silfur.

Auk þess að sinna sínum æfingum af miklum krafti og dugnaði hefur Björn Jónatan aðstoðað við þjálfun yngri iðkenda félagsins og er frábær fyrirmynd fyrir allt ungt íþróttafólk.

Drífa Harðardóttir er tilnefnd til kjörs í vali um íþróttamann Akraness árið 2023 frá Badmintonfélagi Akraness.

Drífa er okkar fremsta badmintonkona á Íslandi, hún hefur alla tíð spilað fyrir ÍA á Íslandi en hún býr og æfir í Danmörku.

Drífa leggur áherslu á tvíliða- og tvenndarleik og spilar þær greinar með liði sínu í deildakeppni í Danmörku.

Hún hefur orðið Íslandsmeistari 13 sinnum, 5 sinnum í tvíliðaleik og 8 sinnum í tvenndarleik.

Drífa er eina konan sem hefur orðið Íslandsmeistar í Meistaraflokki fyrir ÍA, hún er einnig sá badmintonspilari frá Íslandi sem hefur oftast orðið Heimsmeistari eldri spilara, 5 sinnum.

Einar Margeir Ágústsson er tilnefndur til kjörs í vali um íþróttamann Akraness árið 2023 frá Sundfélagi Akraness.

Einar Margeir hefur haldið áfram að bæta sig á árinu, Einar er Íslandsmeistari í 100m fjórsundi, unglingameistari í 50m, 100m, 200m bringusundi og 100m fjórsundi, Einar setti einnig unglingamet í sömu greinum.

Einar á 9 Akranesmet í fullorðins flokki og 13 í unglingaflokki. Einar Margeir á þriðja hraðasta tímann frá upphafi í 200m bringusundi og 50m bringusundi.

Einar er í A-landsliði Íslands, tók þátt í alþjóðlegum mótum fyrir hönd Íslands og á Evrópumeistaramótinu í 25m laug var Einar í sætum númer 21. í 200m bringusundi, 22. í 50m bringusundi og 24. í 100m bringusundi.

Einar var í 14 sæti í 50m bringusundi á Evrópumeistaramóti unglinga. Sundfélag Akraness er stolt af því að hafa Einar innan sinna vébanda.

Elsa Maren Steinarsdóttir er tilnefnd til kjörs í vali um íþróttamann Akraness árið 2023 frá Golfklúbbnum Leyni.

Elsa Maren Steinarsdóttir átti frábært golftímabil.

Elsa Maren vann sitt fyrsta mót á Unglingamótaröð GSÍ. Auk þess varð hún tvívegis í öðru sæti og einu sinni í því þriðja. Elsa stóð uppi sem stigameistari 2023 í flokki stúlkna 17-21 árs.

Elsa Maren tók jafnframt þátt í GSÍ mótaröð sterkustu kylfinga landsins. Hún lauk sumrinu í 21. sæti á stigalista GSÍ og komst m.a. í gegnum niðurskurð á Íslandsmótinu í höggleik og lauk leik í 8. sæti í Hvaleyrarbikarnum.

Þá sigraði Elsa Maren Meistaramót Leynis sannfærandi og undir lok tímabilsins gerði hún sér lítið fyrir og setti nýtt vallarmet á Garðavelli þegar hún lék hringinn á 65 höggum í Vatnsmótinu.

Hún er góð fyrirmynd fyrir yngri kylfinga í GL, er mjög samviskusöm við æfingar og kurteis.

Guðfinur Þór Leósson er tilnefndur til kjörs í vali um íþróttamann Akraness árið 2023 frá Knattspyrnufélaginu Kári.

Guðfinnur Þór Leósson var valinn leikmaður ársins hjá Kára árið 2023 af leikmönnum og þjálfurum liðsins, hann var valinn í lið ársins í 3.deildinni og varð markahæsti leikmaður liðsins með 8 mörk í 19 leikjum.

Guðfinnur Þór er öflugum miðjumaður sem hefur gríðarlega mikinn metnað og leggur sig alltaf 100% fram bæði á æfingum og í leikjum, hann er frábær fyrirmynd fyrir yngri leikmenn hvað varðar alla þætti knattspyrnunnar.

Guðrún Julianne Unnarsdóttir er tilnefnd til kjörs í vali um íþróttamann Akraness árið 2023 frá Fimleikafélagi ÍA.

Guðrún Julianne er 19 ára gömul og hefur æft hjá félaginu frá því að hún var barn og verið lykilkona í liði meistaraflokks síðustu 6 ár.

Guðrún skarar fram úr bæði í stökkæfingum og á gólfi. Hún var á árinu valin í úrvalshóp fyrir kvenna landslið íslands sem keppir á Evrópumótinu í hópfimleikum 2024. En þetta er í annað sinn sem Guðrún er valin í hópinn.

Guðrún keppti með liði meistaraflokks ÍA á tímabilinu og
skilaði liðið góðum árangri í efstu deild.

Guðrún er frábær fimleikakona og öðrum iðkendum og liðsfélögum sínum mikil fyrirmynd.

Hún er vinnusöm og metnaðargjörn sem hefur skilað henni þangað sem hún er í dag. Guðrún er mikill leiðtogi og mikilvæg liðsfélögum sínum þegar kemur að hvatningu og liðsheild.

Ísak Birkir Sævarsson er tilnefndur til kjörs í vali um íþróttamann Akraness árið 2023 frá Keilufélagi Akraness.

Ísak Birkir stóð sig ótrúlega vel innanlands sem og erlendis á árinu. Hann komst áfram á Reykjavíkurleikunum, varð í sjöunda sæti á íslandsmóti einstaklinga og varð íslandsmeistari para ásamt Katrínu Fjólu.

Hann setti íslandsmet í þremur leikjum með 827 pinna og gerði sér lítið fyrir og smellti í tvo 300 leiki á árinu, sem er fullkominn leikur.

Ísak keppti á masters móti u30 í Skotlandi og vann það mót og var þremur pinnum frá því að ná niðurskurði á EBT móti í Frakklandi.

Ísak er frábær fyrirmynd fyrir yngri iðkendur ásamt því að vera duglegur í sjálfboðavinnu fyrir félagið. Ástundun Ísaks er til fyrirmyndar fyrir aðra iðkendur keilunnar og erum við í Keilufélagi Akraness einstaklega stolt að hafa hann í okkar röðum.

Kristín Þórhallsdóttir er tilnefnd til kjörs í vali um íþróttamann Akraness árið 2023 frá Kraftlyftingafélag Akraness.

Kristín hefur stundað klassískar kraftlyftingar frá árinu 2019. Hún keppir í -84 kg opnum flokki fullorðinna og er stigahæsti Íslendingurinn í íþróttinni óháð kyni, þyngdarflokki og aldursflokki.

Helstu afrek Kristínar á árinu eru silfurverðlaun í samanlögðu á

Heimsmeistaramótinu í klassískum kraftlyftingum í opnum flokki sem fór fram á Möltu í júní. Hún hlaut bronsverðlaun á Evrópumeistaramótinu í Eistlandi núna í desember í samanlögðu.

Einnig hlaut Kristín gullverðlaun á Reykjavíkurleikunum (Reykjavík International Games – RIG) og varð stigahæsti keppandinn á Íslandsmeistaramóti í klassískri réttstöðulyftu.

Kristín setti fjögur Íslandsmet á árinu, eitt í bekkpressu og þrjú í réttstöðulyftu. Besti árangur Kristínar á árinu er eftirfarandi:
Hnébeygja: 222,5 kg, Bekkpressa: 125 kg ,Réttstöðulyfta: 240kg ,Samanlagt: 565 kg

Kristín Þórhallsdóttir er fjórða á heimslista Alþjóðlega kraftlyftingasambandsins (IPF) í sínum þyngdarflokki fyrir árið 2023.

Kristrún Bára Guðjónsdóttir er tilnefnd til kjörs í vali um íþróttamann Akraness árið 2023 frá Karatefélag Akraness.

Kristrún byrjaði að æfa Karate íþróttina 6 ára gömul í KAK. Það sem hefur einkennt hennar Karateferil er keppnisskap. Síðan hún var lítil þá hefur hún alltaf keppt á öllum mótum með miklum sigurvilja og ákveðni.

Þetta hugarfar hefur svo sannarlega skilað árangri en hún hefur verið afrekskona í íþróttinni síðan hún var táningur. Án þess að hafa hægt á sínum eigin æfingum er Kristrún í dag einn helsti barna og unglingaþjálfari deildarinnar og algerlega ómissandi í því starfi.

Kristrún Bára hefur staðið sig afar vel á árinu sem er að líða.
Hún var valin í landslið Íslands í Kata. Hún keppti á Opna sænska meistarmótinu í Stokkhólmi og lenti þar í 3. sæti í einstaklingsflokki og fyrsta sæti í hópkata.

Hún fór einnig á á Norðurlandamótið í Gautaborg og lenti þar í öðru sæti í hópkata. Þetta er henni besti árangur erlendis hingað til.

Viktor Jónsson er tilnefndur til kjörs í vali umíþróttamann Akraness árið 2023 frá Knattspyrnufélagi ÍA.

Viktor var einn af burðarrásum í knattspyrnuliði ÍA sem vann Lengjudeild karla á nýliðnu keppnistímabili 2023. Hann var lang markahæsti leikmaður deildarinnar með 20 mörk í 22 leikjum.

Viktor gegndi lykilhlutverki í liðinu auk þess að vera einn af leiðtogum liðsins, dreif hann liðið áfram með reynslu sinni og leiddi liðið af krafti inná vellinum.

Viktor hefur fest sig í sessi sem einn allra besti framherji landsins og verður gaman að fylgjast með honum í efstu deild á næsta tímabili.

Þórður Freyr Jónsson er tilnefndur til kjörs í vali um íþróttamann Akraness árið 2023 frá Körfuknattleiksfélagi Akraness.

Þórður Freyr Jónsson hefur sýnt ótrúlega hæfileika og leiðtogahæfni, sem fyrirliði ÍA í körfuknattleik. Þrátt fyrir að vera aðeins 18 ára hefur hann tekið að sér þetta mikilvæga og krefjandi hlutverk. Hann hefur stjórnað liðinu af öryggi og kunnáttu og vaxið mjög í þessu hlutverki.

Þórður Freyr er sjöundi stigahæsti Íslendingurinn í fyrstu deild, þrátt fyrir að vera í stífri gæslu andstæðinga. Þetta sýnir framúrskarandi getu hans og þrautseigju sem skorari á háu stigi í körfuboltanum.

Hann hefur einnig verið lykilmaður í að leiða ÍA-liðið til fjölda sigra á núverandi tímabili, þar sem liðið situr nú í úrslitakeppnissæti. Það sýnir fram á getu hans til að hafa áhrif á úrslit leikja og lyfta liðinu í nýjar hæðir.

Á alþjóðavettvangi hefur Þórður Freyr leikið fyrir hönd Íslands í 18 ára landsliði karla, þar sem hann var einn af lykilmönnum í liðinu sem náði eftirtektarverðum árangri. Hann hefur einnig verið valinn í æfingahóp 20 ára landsliðs Íslands, sem sýnir enn frekar hve mikilvægur hann er fyrir framtíð íslensks körfubolta.

Fyrir þennan framúrskarandi árangur á vellinum, bæði innanlands og erlendis, ásamt leiðtogahlutverki sínu í liðinu, er Þórður Freyr Jónsson án efa réttmætur körfuknattleiksmaður Akraness ársins 2023.

Íþróttamenn Akraness frá upphafi:

2022: Kristín Þórhallsdóttir, (3) kraftlyftingar (3).

2021: Kristín Þórhallsdóttir, (2) kraftlyftingar (2).

2020: Kristín Þórhallsdóttir, (1) kraftlyftingar (1).

2019: Jakob Svavar Sigurðsson, (2) hestamennska (2).

2018: Valdís Þóra Jónsdóttir (7) golf (11).

2017: Valdís Þóra Jónsdóttir, (6) golf (10).

2016: Valdís Þóra Jónsdóttir, (5) golf (9).

2015: Ágúst Júlíusson, (2) sund (21)

2014: Ágúst Júlíusson, (1) sund (20).

2013: Jakob Svavar Sigurðsson, (1) hestamennska (1).

2012: Inga Elín Cryer, (2) sund (19).

2011: Inga Elín Cryer, (1) sund (18).

2010: Valdís Þóra Jónsdóttir, (4) golf (8).

2009: Valdís Þóra Jónsdóttir, (3)golf (7).

2008: Valdís Þóra Jónsdóttir, (2) golf (6).

2007: Valdís Þóra Jónsdóttir, (1) golf (5).

2006: Eydís Líndal Finnbogadóttir, (1) karate.

2005: Pálmi Haraldsson, (1) knattspyrna (10).

2004: Kolbrún Ýr Kristjánsdóttir, (6) sund (17).

2003: Kolbrún Ýr Kristjánsdóttir, (5) sund (16).

2002: Kolbrún Ýr Kristjánsdóttir, (4) sund (15).

2001: Kolbrún Ýr Kristjánsdóttir, (3) sund (14).

2000: Birgir Leifur Hafþórsson, (3) golf (4).

1999: Kolbrún Ýr Kristjánsdóttir, (2) sund (13).

1998: Kolbrún Ýr Kristjánsdóttir, (1) sund (12).

1997: Þórður Emil Ólafsson, (1) golf (3).

1996: Birgir Leifur Hafþórsson, (2) golf (2).

1995: Sigurður Jónsson, (2) knattspyrna (9).

1994: Sigursteinn Gíslason, (1) knattspyrna (8).

1993: Sigurður Jónsson, (1) knattspyrna (7).

1992: Birgir Leifur Hafþórsson, (1) golf (1).

1991: Ragnheiður Runólfsdóttir, (6) sund (11),

*(Íþróttamaður ársins á Íslandi).

1990: Ragnheiður Runólfsdóttir, (5) sund (10).

1989: Ragnheiður Runólfsdóttir, (4) sund (9).

1988: Ragnheiður Runólfsdóttir, (3) sund (8).

1987: Ólafur Þórðarson, (1) knattspyrna (6).

1986: Ragnheiður Runólfsdóttir, (2) sund (7).

1985: Ragnheiður Runólfsdóttir, (1) sund (6).

1984: Bjarni Sigurðsson, (1) knattspyrna (5).

1983: Sigurður Lárusson, (1) knattspyrna (4).

1982: Ingi Þór Jónsson, (2) sund (5).

1981: Ingólfur Gissurarson, (2) sund (4).

1980: Ingi Þór Jónsson, (1) sund (3).

1979: Ingólfur Gissurarson, (1) sund (2).

1978: Karl Þórðarson, (1) knattspyrna (3).

1977: Jóhannes Guðjónsson, (1) badminton (1) / knattspyrna (2).

1972: Guðjón Guðmundsson, (1) sund (1), (Íþróttamaður ársins á Íslandi).

1965: Ríkharður Jónsson, (1) knattspyrna (1).