„Gísli rakari“ er hættur að klippa – Carmen Llorens kaupir stofuna

„Framundan eru nýir tímar hjá mér og ég byrja á góðu fríi. Ég sé svo til hvað ég tek mér fyrir hendur en ég mun ekki vinna meira sem klippari,“ segir Gísli J. Guðmundsson, betur þekktur sem, Gísli rakari.

Carmen Llorens hefur gengið frá kaupum á stofunni af Gísla. Carmen þekkir vel til þar á bæ en hún og Gísli hafa starfað saman frá árinu 2017 á rakarastofunni á Stekkjarholtinu.

Gísli hefur starfað sem hárskeri í rúmlega 30 ár en hann hefur ákveðið að láta staðar numið í faginu.

„Ég vil þakka öllum viðskiptavinum stofunnar fyrir viðskiptin og vinskap og hlýju í minn og okkar garð. Takk kærlega fyrir mig. Ég vona að þið haldið áfram tryggð við Carmen og stofuna, hún mun taka vel á móti ykkur og þjónusta, eins og hún hefur alla tíð gert. Takk kærlega fyrir mig,“ segir Gísli.