SkagaTV: Nýárstónleikar Kórs Akraneskirkju slógu í gegn

Nýárstónleikar Kórs Akraneskirkju sem fram fóru í gærkvöld verða lengi í minnum hafðir.  Tæplega 300 gestir troðfylltu Bíóhöllina – sem er aðsóknarmet. 

Í myndbandinu hér fyrir neðan er stutt myndband frá tónleikunum sem lýsir ágætlega stemningunni sem var í Bíóhöllinni. 

 

Síðkjólar og dans voru einkennismerki tónleikanna – sem voru samvinnuverkefni kórsins, Bíóhallarinnar og Kalmans Listfélags.

Jakob Þór Einarsson og Sigrún Ósk Kristjánsdóttir voru kynnar kvöldsins- og áttu stóran þátt í því að upplifun tónleikagesta varð enn betri.

 

Björg Þórhallsdóttir, sópran, og Hanna Þóra Guðbrandsdóttir, sópran, og Óskar Pétursson, tenór, fóru á kostum á þessum tónleikum ásamt hljómsveitinni sem var þannig skipuð: Sigrún Eðvaldsdóttir, fiðluleikari, Sigurður Ingvi Snorrason, klarinettuleikari, Hávarður Tryggvason, kontrabassaleikari og Helga Bryndís Magnúsdóttir lék á píanó.

Þess má geta að Óskar kom inn í verkefnið með mjög skömmum fyrirvara. Kristján Jóhannsson, tenór, forfallaðist vegna veikinda. Forsvarsfólk kórsins brugðust fljótt við og höfðu samband við Óskar. Hann gaf sér 30 mínútur til umhugsunar þegar óskað var eftir því að hann tæki hlutverkið að sér. Álftagerðisbróðirinn brunaði í ófærð og hálku frá norðurlandi til þess að taka þátt í síðustu æfingu kórsins – daginn fyrir tónleikana.

Hrafnhildur Geirsdóttir, Ólafur Rúnar Guðjónsson, Valdís Inga Valgarðsdóttir og Sæmundur Víglundsson voru með skemmtilega innkomu á tónleikunum. Þau stigu prúðbúinn á svið og dönsuðu vals, líklega Vínarvals, í góðum takti við þema kvöldsins.