Llorens hárstofa byggir á traustum grunni – myndasyrpa

Llorens hárstofa opnaði í byrjun þessa árs en eigandi stofunnar er Carmen Llorens hársnyrtir. 

Hárstofan byggir á þeim grunni sem lagður var á Rakarastofu Gísla – en Carmen og Gísli störfuðu saman á rakarastofunni um margra ára skeið. 

Gísli hefur nú sagt skilið við hársnyrtifagið eftir rúmlega 30 ára starfsferil og keypti Carmen stofuna í lok síðasta árs. 

Llorens hárstofa var opnuð þann 5. janúar s.l. Í gær var opnunarhóf haldið í húsakynnum stofunnar á Stekkjarholti  8 – og eru myndirnar hér frá þeim viðburði. 

„Ég hlakka til að taka á móti fólki hér á Llorens hárstofu – og ég mun bjóða upp á sömu þjónustu og var á Rakarastofu Gísla,“ segir Carmen. 

Nafnið á hárstofunni vísar í ættarnafn föður hennar, Enrique Llorens, sem er fæddur á Spáni en hefur búið og starfað á Akranesi í rúmlega hálfa öld.

„Það var tekist aðeins á um nafnið í fjölskyldunni. Ég valdi að setja Llorens nafnið á hárstofuna því það er aldrei að vita nema aðrir með Llorens nafnið taki við af mér í framtíðinni,“ segir Carmen. 

Eins og áður segir opnaði Llorens hárstofa þann 5. janúar s.l. og segir Carmen að viðtökurnar hafi verið góðar og mikið að gera. 

Tímapantanir hjá Llorens hárstofu eru í síma 431 3312 en einnig er hægt að koma við á Stekkjarholtinu og kanna hvernig staðan er – og fara beint í stólinn hjá Carmen Llorens.