Nemendur í 10. bekkjum Grundaskóla hafa á undanförnum vikum lagt mikla vinnu við æfingar á söngleiknum Úlfur, úlfur. Verkið var frumsýnt s.l. föstudag og hafa allar sýningar verið uppseldar fram að þessu.
Úlfur, úlfur er eins og áður segir söngleikur og er verkið samið af Einari Viðarssyni, Flosa Einarssyni og Gunnari Sturlu Hervarssyni.
Bókasafn og þekktar ævintýrapersónur eru miðdepill sýningarinnar – og minnkandi lestraráhugi almennings er verkefni sem ævintýrapersónurnar vilja leysa og sanna þar með tilverurétt sinn.
Sagan hefur að geyma margar skemmtilegar og litríkar persónur, hraða atburðarás, kraftmikla tónlist og dans, sem allt blandast saman í skemmtilegan hrærigraut, lituðum ævintýrablæ.
Hér fyrir neðan er myndasafn frá sýningunni sem fram fór þriðjudaginn 30. janúar og myndbandið er einnig frá þeirri sýningu.