Eva Björg fékk íslensku glæpasagnaverðlaunin 2023

Skagakonan Eva Björg Ægisdóttir hlaut í gær Íslensku glæpasagnaverðlaunin Blóðdropann fyrir bók sína Heim fyrir myrkur.

Verðlaunin voru afhent af forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, í gær.

Verðlaunaupphæðin er ein milljón króna fyrir hvert verðlaunaverk. Félag íslenskra bókaútgefenda kostar verðlaunin.

Bókin verður jafnframt framlag íslands til Norrænu glæpasagnaverðlauna Glerlykilsins.

Eva Björg var útnefnd sem bæjarlistamaður Akraness árið 2023.

Heim fyrir myrkur er sjötta glæpaskáldsagan sem hún semur. Allar bækur Evu hafa vakið mikla athygli og notið vinsælda.

 

Í umsögn um bókina segir:

„Vel sögð saga með fjölbreyttu, breysku persónugalleríi og slunginni atburðarás. Sögusviðið er áhugavert og sagan er í senn glæpa- og spennusaga, sálfræðitryllir, fjölskyldudrama og íslensk samfélagslýsing á seinni hluta síðustu aldar. Höfundur sáir fjölda efasemda í hug lesanda þannig að hann grunar allt og alla söguna á enda.“

Íslensku bókmenntaverðlaunin voru fyrst veitt 1989 og er ætlað að draga fram athyglisverðustu útgáfubækur hvers árs. Þetta er í 35. sinn sem tilnefnt er til verðlaunanna.

Félag íslenskra bókaútgefenda gerði samkomulag við Íslenska glæpafélagið árið 2022 um að taka yfir verklega framkvæmd íslensku glæpasagnaverðlaunanna Blóðdropans ásamt því að kosta verðlaunin með sama hætti og Íslensku bókmenntaverðlaunin. Líkt og áður verður handhafi Blóðdropands framlag Íslands til norrænu glæpasagnaverðlaunanna Glerlykilsins.

 

Blóðdropinn, hin íslensku glæpasagnaverðlaun, var afhentur í fyrsta sinn haustið 2007. 

Að verðlaununum stendur „Hið íslenska glæpafélag“ og var athöfnin í gær sú 17. frá upphafi. 

Verðlaunabókin, Heim fyrir myrkur, verður framlag Íslands til Glerlykilsins, norrænu glæpasagnaverðlaunanna.

Verðlaunahafar frá upphafi:

2023: Eva Björg Ægisdóttir – Heim fyrir myrkur.
2022: Skúli Sigurðsson – Stóri bróðir.
2021: Yrsa Sigurðardóttir – Bráðin.
2020: Sólveig Pálsdóttir – Fjötrar.
2019: Lilja Sigurðardóttir – Svik.
2018: Lilja Sigurðardóttir – Búrið.
2017: Arnaldur Indriðason – Petsamo.
2016: Óskar Guðmundsson – Hilma.
2015: Yrsa Sigurðardóttir – DNA.
2014: Stefán Máni – Grimmd.
2013: Stefán Máni – Húsið.
2012 Sigurjón Pálsson – Klækir.
2011: Yrsa Sigurðardóttir – Ég man þig.
2010: Helgi Ingólfsson – Þegar kóngur kom.
2009: Ævar Örn Jósepsson – Land tækifæranna.
2008: Arnaldur Indriðason – Harðskafi.
2007: Stefán Máni – Skipið.