Ásta Björg og Örlygur kveðja verslunina Bjarg – Rán og Fannar eru nýir eigendur

 

Ásta Björg Gísladóttir og Örlygur Stefánsson hafa komið að rekstri verslunarinnar Bjargs á Akranesi allt frá árinu 1973 eða í hálfa öld. Í dag tilkynntu þau að komið væri að tímamótum hjá þeim og hafa þau selt fyrirtækið og rekstur verslunarinnar. Kaupendur eru hjónin Rán Kristinsdóttir og Fannar Baldursson en Rán hefur starfað í versluninni sl. tvö ár og ættu viðskiptavinir Bjargs að þekkja til hennar. Þetta kemur fram í tilkynningu sem er í heild sinni hér fyrir neðan:

Ásta og Örlygur hafa komið að rekstri Bjargs frá árinu 1973 frá þeim tíma hefur verslunin eðlilega tekið töluverðum breytingum, bæði þegar horft er til vöruframboðs og húsnæðis. Alla tíð hefur starfsfólk Bjargs boðið viðskiptavinum sínum upp á faglega og persónulega þjónustu og mun það ekki breytast með nýjum eigendum. Rán, Hrefna, Magga og Bára sjá til þess og taka áfram á móti viðskiptavinum Bjargs.

„Á þessum tímamótum viljum við, Ásta og Örlygur, þakka öllu því góða fólki sem hefur tengist verslun okkar bæði starfsfólki og viðskiptavinum sem hafa verið okkur samferða um lengri eða skemmri hríð. Hrefna Guðjónsdóttir hefur starfað með okkur frá 1978 og fær hún sérstakar þakkir fyrir einstaka vináttu og samstarf. Nýjum eigendum óskum við velfarnaðar.“

Virðingarfyllst,
Ásta Björg Gísladóttir og Örlygur Stefánsson