Óviðunandi aðstæður í fjargeymslu Byggðasafnsins í Görðum

Gula skemman við Sementsbryggjuna hefur frá árinu 2016 verið nýtt sem bráðabirgðahúsnæði sem fjargeymsla fyrir stærri og grófari safnmuni Byggðasafnsins á Akranesi. Um er að ræða rými sem áður hýsti vörugeymslu Akraborgar – og er rýmið um 200 fermetrar að stærð.

Á fundi menningar – og safnanefndar Akraneskaupstaðar nýverið lagði Jón Allansson forstöðumaður Byggðasafnsins í Görðum fram ábendingu um óviðunandi aðstæður í þessari fjargeymslu safnsins. Nefndin telur ástandið alvarlegt og telur brýnt er að bregðast við ákallinu sem allra fyrst.

Jón Allansson segir í samtali við Skagafréttir að Byggðasafnið í Görðum sé viðurkennt safn og þurfi þar að lútandi að uppfylla ýmsar reglur samkvæmt safnalögum nr.141/2011. 

„Safnaráð setur skilmála varðandi húsnæði, öryggismál, aðgengi, skráningarkerfi og faglegt starf sem söfn verða að uppfylla til að fá viðurkenningu safnaráðs. Safnaráð hefur eftirlit með starfsemi viðurkenndra safna og uppfylli safn ekki skilyrði viðurkenningar þá er hægt að afturkalla viðurkenningu. Það sem felst í eftirliti er að safnaráð sendir sína fulltrúa til að gera úttekt á starfsemi allra viðurkenndra safna. Safnið er búið að vera í þessu úttektarferli og hefur fengið mjög góða niðurstöðu fyrir alla faglega starfsemi en neikvæða umsögn varðandi fjargeymslu safnsins í gulu skemmunni. Það er búið að vera lengi í umræðunni að varðveislumál safnsins séu gerð viðunandi og nú þegar við höfum fengið niðurstöðu úttektar hjá safnaráði og hvað er til ráða þá var þetta tekið upp á fundi menningar- og safnanefndar. Það er von okkar á safninu að þetta skili árangri,“ segir Jón Allansson.