Jaðarsbakkar í fortíð eða framtíð ?

Aðsend grein frá Ragnari Sæmundssyni, oddvita Framsóknar og frjálsra á Akranesi: 

Á undanförnum vikum og mánuðum hefur mikil umræða farið fram um Jaðarsbakkasvæðið. Umræðan hefur farið fram á samfélagsmiðlum, kaffistofum og víðar. Tilefni þessarar greinar er ekki að reyna að svara allri þeirri umræðu. Mig langar hins vegar til þess að reyna að draga ferlið saman í stuttu máli en jafnframt skýra afstöðu bæjarfulltrúa Framsóknar og frjálsra.

Árið 2023 var settur af stað starfshópur sem í sátu fulltrúi ÍA, fulltrúi KFÍA, tveir fulltrúar Ísoldar fasteignafélags og tveir bæjarfulltrúar þ.m.t. ég sjálfur. Starfshópurinn fékk það hlutverk að móta framtíðarstefnu Jaðarsbakkasvæðisins.

Þessi vinna var að mínu mati gríðarlega gefandi og skemmtileg. Það gaf mér mikið að eiga samtöl við íbúa, notendur svæðisins og aðra hagaðila og finna áþreifanlega hversu stóran sess Jaðarsbakkar og Langisandur skipa í sjálfsmynd samfélagsins. Starfshópurinn fór í markvissa vinnu við að greina það sem vel hefur verið gert og það sem betur hefði mátt fara í sambærilegum verkefnum hér innanlands sem og erlendis og þannig draga af þeim dýrmætan lærdóm. Allt var þetta gert með það markmið í huga að útkoman við Jaðarsbakka yrði á pari við það sem best þekkist eða betra.

Niðurstaða starfshópsins var sú að Jaðarsbakkar yrðu miðstöð lýðheilsu, íþrótta og hreyfingar, með skýra tengingu við sjóinn og Langasand. Fókus yrði á sjálfbærni, umhverfið og náttúruna og um leið styðja við heildstæð markmið bæjarins um uppbyggingu sterkra innviða, aukin lífsgæði, farsæld og aðdráttarafl fyrir íbúa og gesti.

Eftir að þarfagreining ÍA og KFÍA hafði farið fram var mótuð skýr stefna og í framhaldinu ákveðið að fá þrjár arkitektastofur til þess að gera tillögur að uppbyggingu svæðisins. Stofurnar Basalt, Sei studio og Nordic fengu verkefnið og kynntu hugmyndir sínar á opnum kynningarfundi í Bíóhöllinni í október sl. Með tilliti til stefnu og þarfagreiningar innihéldu tillögurnar m.a. 50 metra æfinga- og keppnis innisundlaug, gervigras æfingavelli, minni sparkvelli, nýjan aðalvöll og stúku. Allt sem mætir þörfum nútímans auk þess sem ýmsir möguleikar á uppbyggingu og aðstöðu fyrir fleiri íþróttagreinar komu fram sem og 80-100 herbergja hótel. Tillögurnar voru allar frábærar og veittu mikinn innblástur með ólíkri nálgun en við endanlega útfærslu verður horft til þeirra allra að einhverju leyti. Ákveðið var að semja við Basalt arkitekta um vinnu við deiliskipulag af svæðinu og er sú vinna þegar hafin.

Annar íbúafundur fór svo fram 10. janúar og loks vinnufundur með íbúum í síðustu viku þann 22. febrúar. Á þessum fundum komu einnig fram margar áhugaverðir hugmyndir.

Það hefur væntanlega fáum dulist að verkefnið eða hugmyndirnar um uppbyggingu á svæðinu hafa mætt nokkurri andstöðu. Má þar nefna hugmyndir um snúning á knattspyrnuvelli, hótel og svo mætti lengi telja. En hvers vegna er það svo og hver er staða og hlutverk bæjarfulltrúa í málum sem þessum?

Bæjarfulltrúar eru kjörnir til þess að taka ákvarðanir, þeir mega ekki stjórnast af því hvernig vindar blása á samfélagsmiðlum hverju sinni. Ein af meginskyldum kjörinna fulltrúa er að kynna sér allar hliðar máls, hlusta og taka samtal, en í kjölfarið taka upplýsta ákvörðun. Ákvörðun sem fulltrúar standa og falla með.

Samráð og samtal við íbúa er mikilvægt og á það hefur verið lögð rík áhersla í öllu ferlinu. Það er líka mikilvægt að hlusta og skilja hvað íbúar segja og fylgja samtalinu eftir í sátt. Við vinnu skipulagslýsingar komu fram töluverðar efasemdir á meðal íbúa um að ekki væri nægileg rýmd í svæðinu til þess að bera aukna íbúðabyggð og hún gæti ógnað gæðum þess. Á það var hlustað og í þeirri lýsingu sem á endanum var samþykkt úr bæjarstjórn og auglýst, var alfarið fallið frá hugmynd um íbúðabyggð á svæðinu. Áhersla var lögð á að bæta aðstöðu til íþrótta og útivistar, aðgengi um og að sandinum, að hótel og baðlón myndu falla vel að þeirri starfsemi sem fyrir er og að upplifun íbúa og okkar gesta yrði sem best.

Eftir allt sem á undan er gengið, er ég sannfærður um að við séum á réttri leið. Það sem meira er, ég skynja sömu væntingar og þrár í samfélaginu, um að lyfta svæðinu upp á þann stall þar sem það á skilið. Mín tilfinning er sú að hér sé komið mjög gott dæmi um hinn þögla meirihluta sem veigrar sér við því að stíga fram og tjá sig, af ótta við að lenda í hakkavél samfélagsmiðlanna en fylgist grannt með hverju skrefi. Þessi stóri en þögli hópur sér tækifærin sem við okkur blasa.

En hvaða tækifæri eru það? Er þetta ekki bara gott eins og þetta er, þarf nokkru að breyta? Jú, að ákveðnu leyti er þetta frábært. Á vorin þegar allt vaknar úr vetrardvala og vellirnir fyllast af börnum, laugin er full, sandurinn og stígurinn verður að ævintýraheimi fyrir börn á öllum aldri og iðandi mannlíf hvert sem litið er. Þetta er einstakt, algerlega einstakt. Ég trúi því hins vegar að lengi má gott bæta og alltaf sé hægt að gera betur.

Svæðið býr yfir mikilli sögu, sögu af frumkvöðlum sem ruddu brautina með lítið annað en vilja að vopni og handskóflu.

Sögu af mörgum af okkar stærstu sigrum í íþróttalífinu. Augnablikum þar sem hjarta bæjarins sló í takt við frábæran árangur okkar besta íþróttafólks hverju sinni.

Það er verkefni okkar bæjarbúa að halda þessari sögu á lofti. Góð og falleg saga má hins vegar ekki verða fjötrar framtíðar og komandi kynslóða. Það að þetta svæði hafi upphaflega verið tekið undir íþróttaiðkun og þar sé nú rík hefð fyrir útivist og hvers konar heilsueflingu á þess í stað að hvetja okkur til þess að gera betur, betur í dag en í gær.

Þessar löngu tímabæru framkvæmdir eru ekki að fara að breyta fortíðinni en þær geta svo sannarlega breytt framtíðinni. Við viljum vera samanburðarhæft samfélag eða öllu heldur framúrskarandi. Til þess þurfum við að þora að taka ákvarðanir og hafa vilja til framkvæmda. Árangur fyrri tíma á að vera okkur hvatning en ekki til þess fallin að hamla breytingum og framþróun.

Þetta er ekki bara spurning um uppbyggingu á Jaðarsbökkum, þetta er miklu frekar spurning um hvernig samfélag við viljum byggja upp til framtíðar.

Nú er tækifærið, grípum það!
Ragnar Sæmundsson
Höf. er oddviti Framsóknar og frjálsra á Akranesi