Karlalið ÍA í knattspyrnu fékk stóra prófraun í gær þegar Íslands – og bikarmeistaralið Víkings úr Reykjavík kom í heimsókn í Akraneshöllina.
Um var að ræða leik í fjórðu umferð Lengjubikarkeppni KSÍ og mættu fjölmargir áhorfendur á leikinn. ÍA leikur í Bestu deild karla á Íslandsmótinu 2024 en tímabilið hefst í apríl.
Víkingur fékk vítaspyrnu í fyrri hálfleik en Árni Marinó Einarsson markvörður ÍA varði spyrnuna frá Nikolaj Hansen. Staðan var markalaus í hálfleik. Viktor Jónsson kom ÍA yfir á 66. mínútu en Nikolaj Hansen jafnaði metin rétt fyrir leikslok.
ÍA er í efsta sæti riðilsins eftir fjórar umferðir með 7 stig en KA er einnig með 7 stig. Þar á eftir koma Víkingur R., Leiknir R, Afturelding og Dalvík/Reynir er í neðsta sæti. Lokaleikur ÍA í riðlakeppninni er gegn Leikni Reykjavík – og fer sá leikur fram sunnudaginn 3. mars á heimavelli Leiknis.
Alls eru fjórir riðlar í A-deild Lengjubikarkeppninnar og efsta liðið úr hverjum riðli kemst í undanúrslitaleikina sem fram fara 13. mars. Úrslitaleikurinn fer fram sunnudaginn 17. mars.