Guðrún Julianne skrefi nær því að komast á EM í hópfimleikum

Fimleikakonan Guðrún Julianne Unnarsdóttir hefur skipað sér í fremstu röð á landsvísu í hópfimleikum. Í vetur hefur Guðrún Julianne æft með úrtakshópi kvennalandsliðs Íslands – þar sem hún hefur staðið sig vel. 

Guðrún Julianne, sem keppir með Fimleikafélagi ÍA, var á dögunum valin í 16 manna úrvalshóp landsliðskvenna – og er skrefi nær því að komast með íslenska landsliðinu á Evrópumótið sem fram fer í Bakú í Azerbaídsjan í október á þessu ári. 

Fimleikasambandið stefnir á að senda tvö A-landslið til keppni, kvennalið og blandað lið.

Landsliðsþjálfarar velja úrvalshóp sem tilkynntur er á heimasíðu sambandsins og sendur á félögin. Úrvalshópur er breytilegur yfir árið og því eiga allir möguleika á að komast í hóp.

Yfirmaður verkefnisins er framkvæmdastjóri FSÍ, Sólveig Jónsdóttir en daglegur rekstur og umsjón þess er á höndum afreksstjórans, Írisar Mistar Magnúsdóttur með faglegri aðstoð frá Eddu Dögg Ingibersdóttur. Yfirþjálfarar verkefnisins, með faglega stjórn og uppbyggingu, eru þau Björn Björnsson og Hrefna Þorbjörg Hákonardóttir.