Karlalið ÍA í góðri stöðu í Lengjubikarkeppni KSÍ eftir sigur gegn Leikni

Karlalið ÍA í knattspyrnu er í góðri stöðu í Lengjubikarkeppni KSÍ eftir 2-1 sigur gegn liði Leiknis í lokaumferð A-riðils 1.

ÍA er í efsta sæti riðilsins en KA gæti með stórsigri í lokaleik sínum náð að komast upp fyrir ÍA. KA mætir liði Leiknis um næstu helgi á heimavelli Leiknis – og þurfa KA-menn að vinna þann leik með 8 marka mun til þess að komast upp fyrir ÍA. 

Alls eru fjórir riðlar í A-deild Lengjubikarkeppninnar – og fara efstu liðin úr hverjum riðli fyrir sig í undanúrslit keppninnar. 

Steinar Þorsteinsson kom ÍA yfir strax á 6. mínútu á gervigrasvellinum í Breiðholti. Shkelzen Veseli jafnaði metin fyrir heimamenn á 26. mínútu. Varamaðurinn Árni Salvar Heimisson skoraði sigurmark ÍA um miðjan síðari hálfleik.