Kvennalið ÍA er í toppbaráttunni í Lengjubikarkeppni KSÍ

Kvennalið ÍA í knattspyrnu er í öðru sæti í B-deild Lengjubikarkeppni KSÍ þegar þrjár umferðir eru búnar í riðlinum. Alls eru átta lið í riðlinum og er leikin einföld umferð. ÍA og Grindavík gerðu 3-3 jafntefli þegar liðin mættust um síðustu helgi í Akraneshöll. 

Ísabel Jasmín Almarsdóttir kom Grindavík yfir á 6. mínútu, en Bryndís Rúnar Þórólfsdóttir jafnaði metin fyrir ÍA á 36. mín og tveimur mínútum síðar kom Erna Björt Elíasdóttir ÍA yfir – og var staðan 2-1 í hálfleik. 

Grindavíkurliðið byrjaði síðari hálfleik af krafti – og komst í 3-2 með mörkum frá Mist Smáradóttur og Dröfn Einarsdóttur. 

Erna Björt tryggði ÍA jafntefli með sínu öðru marki á 71. mínútu.