Spennandi lokakafli framundan í körfunni – góður sigur gegn Ármanni

Karlalið ÍA landaði í gær góðum sigri í spennandi leik gegn Ármanni í næst efstu deild Íslandsmótsins í körfuknattleik.

Leikurinn fór fram í Laugardalshöll þar sem að ÍA sigraði með þriggja stiga mun, 89-86. 

Það eru þrír leikir eftir hjá ÍA í deildarkeppni Íslandsmótsins á þessu tímabili. 

ÍA í 7. sæti deildarinnar en alls eru 12 lið í deildinni. Efsta liðið að lokinni deildarkeppninni fer beint upp í úrvalsdeildina. Liðin í sætum 2-9 taka þátt í úrslitakeppni þar sem að keppt er um eitt sæti til viðbótar í efstu deild. 

 

Srdan Stojanovic skoraði 30 stig fyrir ÍA, Lucien Christofis var 19 stig, Aamondae Coleman skoraði 12, Aron Dagsson og Styrmir Jónasson skoruðu báðir 11 stig fyrir ÍA.  

Næsti leikur ÍA fer fram föstudaginn 8. mars – þar sem að Skallagrímur kemur í heimsókn í íþróttahúsið við Jaðarsbakka.