Karlalið ÍA tekur á móti liði Skallagríms í kvöld í næst efstu deild Íslandsmótsins í körfuknattleik. Leikurinn fer fram í íþróttahúsinu við Jaðarsbakka og hefst hann kl. 19:15.
ÍA á þrjá leiki eftir í deildarkeppninni – en Skagamenn eru í 7. sæti með 18 stig (9 sigrar og 10 töp). Skallagrímur er í 5. sæti með 20 stig (10 sigrar og 9 töp). Liðin áttust við í byrjun desember á síðasta ári þar sem að Skallagrímur landaði sigri, 72-66.
Í 1. deild karla er keppnisfyrirkomulagið með þeim hætti að efsta lið deildarinnar að loknum 22 umferðum fer beint upp í efstu deild, Subway deildina. ÍR, KR og Fjölnir eru að berjast um það sæti. Liðin í sætum 2.-9. leika í úrslitakeppni um eitt laust sæti til viðbótar í efstu deild á næstu leiktíð.
Eins og staðan er fyrir leik ÍA gegn Skallagríms yrði lið Sindra frá Höfn í Hornafirði mótherji ÍA í 1. umferð úrslitakeppninnar.
ÍA mætir liði KR á útivelli þann 15. mars og í lokaumferðinni kemur lið Selfoss í heimsókn á Akranes – en sá leikur fer fram mánudaginn 25. mars.