Veitingarekstur verður á Aggapalli sumarið 2024 en samningur þess efnis var undirritaður á dögunum. Rakel Mirra Njálsdóttir mun opna þar nýjan stað sem heitir Malíbó – og þar ætlar Rakel Mirra að selja léttar veitingar.
Í tilkynningu sem birt er á vef Akraneskaupstaðar segir Rakel að boðið verði upp á Boozt, skálar og beyglur.
„Minn draumur er að geta boðið Akurnesingum og gestum Akraness upp á hollari kost í mat og drykk í fallegu umhverfi við sjóinn og sandinn. Ég vona að með þessu muni færast enn meira líf og fjör á svæðið þar sem þegar er fjölbreytt afþreying í boði. Ég hlakka gríðarlega mikið til að takast á við þetta verkefni og vona innilega að þessu verði vel tekið af þeim sem eiga leið um standlengjuna í sumar. Einnig má alltaf gera sér sérstaklega leið og koma og heimsækja okkur á Malíbó,“ segir Rakel Mirra Njálsdóttir, eigandi Malíbó í viðtalinu á vef Akraneskaupstaðar.