Bílaumboðið Askja opnar á Akranesi með Viktor Elvar í brúnni

Bílaumboðið Askja mun á næstunni opna sölu- og þjónustuumboð á Innnesvegi 1 Akranesi. Þar verður sala nýrra og notaðra bíla ásamt einfaldri verkstæðis- og hjólbarðaþjónustu.

Skagamaðurinn Viktor Elvar Viktorsson hefur verið ráðinn rekstrarstjóri Öskju á Vesturlandi

Húsið er vel þekkt þar sem Bílver rak sölu og þjónustuumboð fyrir Honda til margra ára með glæsibrag. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Öskju. 

Á Innnesvegi 1 verður sala og þjónusta fyrir öll vörumerki Öskju sem í dag eru Mercedes Benz, Kia, Honda og Smart, ásamt sölu á notuðum bílum. Hjólbarðaþjónustan verður á vegum Dekkjahallarinnar en bæði fyrirtæki eru í eigu Vekra.

„Íbúar á Vesturlandi er stór viðskiptavinahópur Öskju og hefur verið undanfarin ár. Við viljum auka þjónustu við þá með opnun á aðstöðu okkar á Akranesi, og þannig viljum við færast nær íbúum og fyrirtækjum á Vesturlandi. Við lítum á þetta sem fyrsta skref í að koma okkur fyrir á svæðinu og sjáum fyrir okkur að vaxa enn frekar á svæðinu í framtíðinni. Samningur um Bílvershúsið er tímabundinn og verður þjónustan einföld til að byrja með. Við ætlum að móta starfsemina smá saman og gerum ráð fyrir þvi að hún vaxi og starfsmönnum fjölgi, enda vilja skagamenn og íbúar vesturlands geta sótt sína þjónustu í nærumhverfi sínu“ segir Jón Trausti Ólafsson framkvæmdastjóri Öskju sem einnig stýrir móðurfélaginu Vekra.

Viktor Elvar Viktorsson hefur verið ráðinn rekstrarstjóri Öskju á Vesturlandi. Viktor er kerfis- og tölvunarfræðingur og hefur starfað hjá VR undanfarin 20 ár. Hann er skagamaður í húð og hár og mörgum kunnugur, m.a. annars fyrir störf sín fyrir íþróttahreyfinguna á Akranesi.

„Ég lít á þetta sem frábært tækifæri að taka þátt í spennandi verkefni með öflugu fyrirtæki. Vörumerki Öskju hafa verið áberandi á svæðinu og ég hlakka til að taka á móti eigendum þessara bíla og öllum þeim nýju viðskiptavinum sem við munum vonandi eignast í framtíðinni. Fyrst um sinn munum við sinna sölu nýrra og notaðra bíla, þjónustan mun svo byggjast upp og við munum jafnt og þétt bæta við okkur góðum starfsmönnum“, segir Viktor.

Bílaumboðið Askja var stofnað árið 2005 og hefur verið meðal stærstu bílaumboða landsins síðastliðin ár. Félagið er í eigu Vekra ehf sem jafnframt er eigandi Dekkjahallarinnar, Sleggjunnar sem sinnir þjónustu og sölu á vöru- og hópferðabílum Mercedes-Benz, bílaleigunnar Lotus og Hentar. Starfsmenn samstæðunnar eru um 250 talsins. Askja vinnur samkvæmt Iso umhverfis- og gæðavottun og hlaut nýlega verðlaun frá nemastofu atvinnulífsis sem fyrirmyndarfyrirtæki í móttöku nýnema.