Fyrrum leikmenn og þjálfari ÍA í stóru hlutverki í glæstum sigri Íslands

Þrír fyrrum leikmenn ÍA, og fyrrum þjálfari ÍA, komu við sögu í glæstum 4-1 sigri A-landsliðs Íslands í knattspyrnu gegn Ísrael í gærkvöld.

Leikurinn fór fram í Búdapest í Ungverjalandi – og með sigrinum er Ísland einum sigri frá því að komast í úrslitakeppni Evrópumótsins sumarið 2024.

Ísland mætir Úkraínu á þriðjudaginn í næstu viku í úrslitaleik um laust sæti á EM – og fer sá leikur fram í borginni Wroclaw í Póllandi. 

Arnór Sigurðsson og Hákon Arnar Haraldsson voru í byrjunarliði Íslands – og Ísak Bergmann Jóhannesson kom inn á sem varamaður í síðari hálfleik. Jóhannes Karl Guðjónsson, fyrrum þjálfari karlaliðs ÍA, er aðstoðarlandsliðsþjálfari. 

Eins og áður segir er úrslitaleikurinn á dagskrá á þriðjudaginn í næstu viku – og í þeim leik bætist einn Skagamaður til viðbótar í leikmannahóp Íslands, en Stefán Teitur Þórðarson, var kallaður inn í landsliðshópinn í gær.