Mangirdas og Karen stigahæst á Bárumótinu í sundi

Bárumótið í sundi fór að venju fram í Bjarnalaug en þar fá yngstu iðkendur Sundfélags Akraness tækifæri til þess að bæta keppnisreynslu sína.

Á þessu innanfélagsmóti eru keppendur á aldrinum 8-12 ára en mótið er haldið til minningar um Báru Daníelsdóttur. 

Í tilkynningu frá Sundfélagi Akraness kemur fram að mótið hafi tekist vel og efnilegt sundfólk úr röðum félagsins hafi sýnt miklar framfarir í vetur. 

Alls tóku 30 keppendur þátt og fengu allir verðlaunapening. 

Mangirdas Moliusis og Karen Anna Orlita fengu flest stig á þessu móti og eru því Bárumeistarar 2024.