Aðsend grein frá Önnu Einarsdóttur:
Ég hef fylgst með skrifum Miðbæjarsamtakanna á Akranesi um þá hugmynd að Landsbankahúsið geti orðið ráðhús okkar skagamanna og geti þannig verið með til að lífga upp á miðbæinn. Mér heyrist flestir íbúar Akranes vera sammála um að lífga þurfi upp á miðbæinn og margir á þeirri skoðun að Landsbankahúsið eigi að vera þar í aðalhlutverki og þá sem Ráðhús.
Landsbankahúsið er reisulegt hús með mikinn karakter og einstakan arkitektur. Húsið er teiknað af virtum arkitekt, skagamanninum Ormari Þór Guðmundssyni. Húsið er eitt af kennileitum við Akratorg og mikilvægt er að varðveita hús eins og Landsbankahúsið og spurning hvort ekki ætti að friða húsið.
EN, hentar húsið sem ráðhús? Það virðist vera stóra spurningin.
Samkvæmt svari frá bæjaryfirvöldum “hentar húsið ekki”.
Sem byggingafræðingur og mikil áhugamanneskja um byggingar og framkvæmdir mundi ég vilja fá betri rök við spurningunni. Hvað er það sem hentar ekki?
Ég hef skoðað teikningar af húsinu.
– Húsið er byggt upp með súlum og bitum og þar að leiðandi lítið um burðarveggi inni í miðju húsi og því auðvelt að skipta húsinu upp í passandi einingar. – Góðar flóttaleiðir eru úr húsinu þar sem stigar/stigahús eru við báða enda í húsinu.
– Lyfta er til staðar í húsinu.
– Salerni eru á öllum hæðum og 2 salerniskjarnar í sitthvorum enda á 2. hæð. – Góð salarhæð er í húsinu, sérstaklega á 1. hæð, þar sem auðvelt er að koma fyrir kerfisloftum og lögnum.
Svo er spurning:
– Hver er kostnaður við að byggja nýtt hús vs. að gera upp Landsbankahúsið? – Ef byggt verður nýtt hús, hvenær sjá bæjaryfirvöld fyrir sér að nýtt hús verði tilbúið og hver er kostnaðaráætlunin?
Bæjarfulltrúar eru kosnir af okkur bæjarbúum og vinna í okkar þágu og það er sjálfsagt að við fáum svör við því sem skiptir okkur mörg máli. Hér er um stóra hóp að ræða sem óskar eftir að þessi hugmynd verði skoðuð.
Miðbæjarsamtökin hafa óskað eftir samtali og opinni umræðu um málið.
Ég hvet bæjarfulltrúa að taka samtalið við Miðbæjarsamtökin.
Ég kaupi gjarnan góð rök ef húsið hentar ekki sem ráðhús en ég þarf betri rök frá bæjaryfirvöldum til að taka afstöðu í málinu.
Anna Einarsdóttir
Byggingafræðingur og íbúi á Akranesi.