Óska eftir viðræðum við Akraneskaupstað vegna aðstöðu til sýninga

Listfélag Akraness hefur óskað eftir viðræðum við Akraneskaupstað um aðstöðu til sýninga á Akranesi. Ályktun þess efnis var samþykkt á aðalfundi Listfélags Akraness. Þar kemur fram að félagið  telur brýna þörf á aðstöðu til sýninga á Akranesi og óskar eftir samráði og aðkomu Akraness varðandi húsrými með sýningarsal og aðstöðu til annarra uppákoma varðandi listir.

Menningar- og safnanefnd tók erindið fyrir á fundi nefndarinnar nýverið. Þar kemur fram að nefndin  tekur undir að ákjósanlegt væri að búa yfir fjölnota sýningarrými í bæjarfélaginu en vekur um leið athygli á því að slíkum sal fylgir töluverður rekstrarkostnaður og umgjörð.

Nefndin bendir á að Akraneskaupstaður styðji við menningarstarf bæjarfélagsins með því að leita lausna við að útvega sýningarrými, tónleikastaði og annann vettvang fyrir ýmiskonar viðburðarhald án endurgjalds. Jafnframt veitir kaupstaðurinn stuðning við markaðssetningu og ýmislegt fleira. Málið verður tekið til umræðu í bæjarráði að ósk Listfélags Akraness.