Aðsend grein frá Einari Brandssyni.
Það er kunnara en frá þurfi að segja að læknavísindin taka stórstígum framförum og auka því lífslíkur og langlífi. Þessi aukna þekking og reynsla nýtist því aðeins að réttum aðferðum sé beitt hverju sinni. Ekki síst þarf rétta búnaðinn til verka eigi vel að fara.
Ég rifja upp þessi alkunnu sannindi nú vegna um margt sérkennilegrar herferðar sem Miðbæjarsamtökin Akratorg hafa staðið fyrir að undanförnu undir slagorðunum „Fyrsta hjálp og hjartahnoð fyrir miðbæinn“ Samtök þessi hafa starfað um árabil og hafa haft frekar þröngt sjónarhorn og úrræði er eiga að efla líf í gamla miðbæ Akraness og stundum er það svo að umræðan snúist eingöngu um Akratorgið og allra næstu hús.
Herferðin nú er rörsýnni en nokkurn tímann fyrr. Hjartahnoðið og fyrsta hjálpin beinist að einu húsi og í það skal koma fyrir, með góðu eða illu, einum hópi bæjarbúa nefnilega hluta af starfsmönnum Akraneskaupstaðar. Það á sumsé að fylla gamla Landsbankahúsið af embættismönnum frá 8-16 á virkum dögum. Sjúklingur sem slíkt hjartahnoð fær kemst ekki lifandi um læknishendur.
Að endurlífga miðbæ þarfnast mun róttækari aðgerða og fyrsta skrefið er að tryggja íbúafjölgun í miðbænum sjálfum og næsta nágrenni hans. Að því hafa bæjarstjórnir undanfarinna ára unnið m.a. með uppbyggingu Sementsreitsins. Vissulega hefði sú vinna mátt ganga hraðar fyrir sig en mikilvægt er að víkja ekki frá þeirri stefnumörkun.
Það er afskaplega leitt þegar samtök á borð við áðurnefnd miðbæjarsamtök telji það málstað sínum til framdráttar að afvegaleiða umræðuna um miðbæinn og reyna með því að blekkja fólk til undirskriftar plaggs sem fyrirfram er vitað að er byggt á sandi.
Samtökin láta í það skína að bæjaryfirvöld hafi svona nokkurn veginn af því bara ákveðið að gera Landsbankahúsið ekki að ráðhúsi bæjarins. Það er fjarri sanni. Á þeim árum sem liðin eru frá kaupum bæjarins á Landsbankahúsinu hefur í það minnsta þrisvar sinnum verið skoðaður sá möguleiki að breyta því í skrifstofuhúsnæði sem standist nútímakröfur um vinnuaðstæður og hollustuhætti. Í öll skiptin hefur niðurstaðan orðið sú að það sé ekki góð lausn. Á það við um kostnað, stærð og fleiri þætti.
Má þar nefna að fyrir nokkrum árum var metinn kostnaður við það eitt að tryggja að Landsbankaahúsið haldi vatni og vindum. Sá kostnaður einn var á þeim tíma metinn um 200 milljónir króna. Þá er öll vinna við breytingar og endurbætur innan dyra eftir.
Þetta ættu forsvarsmenn miðbæjarsamtakanna að vita. Samt sem áður fullyrða talsmenn samtakanna að það muni einungis kosta 200-300 milljónir að gera húsið klárt til notkunar sem ráðhús „þannig að sómi væri að“ eins og forsvarsmennirnir hafa tekið svo smekklega til orða.
Nú er ekki óeðlilegt að þeirri spurningu verði svarað hvað sé innifalið í því lítilræði sem samtökin telja að kostnaðurinn verði svo sómi sé að. Á að bjóða starfsmönnum Akraneskaupstaðar lakari vinnuaðstæður en almennt er gerð krafa um í dag? Telja samtökin að afsláttur verði veittur af reglum um hollustuhætti af því að þetta sé svo göfugt markmið að fylla miðbæinn af embættismönnum átta tíma á dag?
Enn ein rangfærsla samtakanna er sú að ekkert hafi verið unnið í uppbyggingu framtíðarhúsnæðis bæjarskrifstofu Akraneskaupstaðar. Því fer fjarri og það vita talsmennirnir. Núverandi og fyrrverandi bæjarstjórnir hafa á undanförnum árum undirbúið byggingu ráðhúss bæjarins sem gæti risið á Sementsreitnum. Slík uppbygging gæti orðið að veruleika með aðkomu fleiri aðila sem huga, líkt og bæjarfélagið, að framtíðarskipulagi sinna mála. Með því verður tryggð hagkvæmni sem ávallt verður að hafa í huga við opinberar framkvæmdir. Frekari fréttir af þessum áformum gætu litið dagsins ljós á næstu vikum.
Hvað verður um Landsbankahúsið veit enginn að svo stöddu. Það verður væntanlega boðið til sölu á næstu vikum og vonandi skapast í kjölfarið möguleiki á endurbyggingu hússins og svæðisins og næsta nágrennis þess. Það hefur verið reynt nokkrum sinnum áður án árangurs. Ég er ekki alltof bjartsýnn til skemmri tíma því ég veit að sérfræðingar sem það hafa skoðað telja það mjög illa farið. Ef takast á að efla mannlíf í miðbænum verður hins vegar að komast niðurstaða í endurbyggingu þess svæðis fljótlega.
Mannlíf í gamla miðbænum við og í næsta nágrenni Akratorgs er ekki svipur hjá sjón. Það er afleiðing langrar þróunar. Þróunar sem fylgt hefur breytingum í atvinnulífi ekki síst í verslun og viðskiptum ýmiss konar. Reynt var fyrir nokkrum árum að styrkja einstaklinga í miðbænum með fjármunum úr bæjarsjóði til endurbyggingar eldri húsa. Það hefur skilað endurbættum og fallegri húsum en það varð ekki hjartahnoð sem virkaði.
Við þurfum að endurbyggja miðbæjarsvæði Akraness og þá verður að horfa til framtíðar fremur en fortíðar. Hugsum stórt og höfum sjónarhornið vítt. Ný og gömul mannvirki geta og verða að lifa í sátt og samlyndi í öflugum bæjarfélögum. Gerum miðbæjarsvæðið að aðlaðandi búsetukosti fyrir unga sem aldna. Fólkinu mun fylgja þjónusta. Það er rétta tækið til þess að veita þá fyrstu hjálp sem miðbærinn sárlega þarf á að halda.
Einar Brandsson
Höfundur er íbúi og bæjarfulltrúi á Akranesi.