Aðsend grein frá Bjarnheiði Hallsdóttur:

Miðbæjarsamtökin eru samtök allskonar fólks á Akranesi, sem hefur einlægan áhuga á að taka þátt í efla samfélagið á Akranesi, með sérstakri áherslu á að lífga við og efla gamla miðbæinn. Það er ekkert einsdæmi að áhugi sé fyrir því, flestir bæir og borgir í heiminum vilja hafa fallegan og líflegan miðbæ og reyna af mætti að skapa skilyrði til þess. Lifandi og aðlaðandi miðbæir eru lífsgæði, sameiningartákn, ýta undir gott mannlíf og samskipti íbúa.

Gera bæi og borgir einfaldlega skemmtilegri og meira aðlaðandi til búsetu.  Það þarf vart að taka það fram að Miðbæjarsamtökin eru grasrótarsamtök, þar sem fólk eyðir sínum frítíma og hugarorku í að koma með hugmyndir til að efla bæjarlífið. Grasrótarsamtök eru ekki sjálfgefin. Ég þekki vel til ýmis konar félagsstarfa og veit hversu mikilvæg og ómissandi grasrótin er alls staðar. Ef ég væri kjörinn fulltrúi á Akranesi, þá myndi ég þakka kærlega fyrir lífsmarkið og framtakið og leggja vel við hlustir. 

Innspýting í endurlífgun miðbæjarins

Okkur í Miðbæjarsamtökunum finnst það borðleggjandi að kanna möguleikana á því að nýta gamla Landsbankahúsið, sem er jú í eigu bæjarins, undir starfsemi bæjarskrifstofunnar. Bæjarskrifstofurnar eru á hrakhólum og vantar húsnæði. Landsbankahúsið er að okkar mati eitt glæsilegasta hús bæjarins og myndi  sóma sér vel sem ráðhús. Af þessu tilefni höfum við efnt til undirskriftasöfnunar, þar sem við skorum á bæjaryfirvöld að kanna af alvöru fýsileika þess að nýta þetta hús undir starfsemi bæjarins. Ástæða þess, er auk þeirrar að bærinn á húsið, að við trúum því einlæglega að starfsemi á borð við þessa myndi vera innspýting í endurlífgun miðbæjarins. Tiltölulega stór vinnustaður á þessum stað, myndi nær örugglega styrkja grundvöll fyrir aðra starfsemi í  nágrenninu og jafnvel í húsinu sjálfu.  Það eru ekki bara við sem höldum það, heldur gera nútíma skipulagsfræði einmitt ráð fyrir því að það þurfi góða blöndu af  vinnustöðum, íbúðum og öflugri atvinnustarfsemi (verslanir, þjónusta, veitingar) á jarðhæðum bygginga til að búa til samfélög, þar sem fólk vill búa og vinna. Fyrir þá sem vilja lesa sér betur til um þetta, bendi ég á danska skipulagsarkitektinn Jan Gehl.

Skammarbréf og aðdróttanir frá kjörnum fulltrúa

Því finnst okkur það undarlegt í meira lagi að fá skammarbréf í formi aðsendrar greinar í Skessuhorn og Skagafréttir frá kjörnum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn, Einari Brandssyni. Við förum greinilega mjög í taugarnar á Einari. Hann sakar okkur um að standa fyrir sérkennilegri herferð, að við séum að afvegaleiða umræðuna, við séum með þröngt sjónarhorn og jafnvel rörsýn. Hann segir að við ætlum með góðu eða illu að pína starfsfólk kaupstaðarins til að vinna í ómögulegu og óheilsusamlegu húsnæði. Þá gefur hann í skyn að við séum að blekkja fólk til að skrifa undir þessa áskorun. Kaldari verða kveðjurnar varla.

Einar sér þessari hugmynd allt til foráttu og segir að endurlífgun miðbæjarins krefjist róttækra aðgerða. Þarna erum við reyndar hjartanlega sammála um markmið, en ekki aðgerðir.  Einari finnst þar liggja beinast við að tryggja íbúafjölgun á svæðinu og þá væntanlega með uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í miðbænum. Það er vissulega mikilvægur þáttur, en einn og sér algjörlega gagnslaus.

Hvar eru þessar úttektir?

Það er hefur legið fyrir nokkuð lengi að bæjaryfirvöld hyggjast reisa skrifstofuhúsnæði á Sementsreitnum og Einar staðfestir það í skammarbréfinu til Miðbæjarsamtakanna. Hann vísar þar til þess að fyrir nokkrum árum hafi verið gerð “úttekt” á Landsbankahúsinu og á þeim tíma hafi það verið reiknað út að það myndi kosta um 200 milljónir að tryggja það að húsið héldi að minnsta kosti vatni og vindum. Þá hljótum við bæjarbúar að spyrja: Af hverju í ósköpunum var ekki ráðist í þær framkvæmdir til að halda húsinu við og koma í veg fyrir frekari skemmdir og rýrnun á virði hússins? Er þarna verið að fara vel með eigur bæjarbúa?

Einar vísar til þess að alls hafi verið gerðar þrjár úttektir á húsinu og allar hafi þær leitt í ljós að því væri nánast ekki viðbjargandi. Hvar eru þær úttektir og hvað nákvæmlega leiddu þær í ljós? 

Hagkvæmt að byggja skrifstofur á verðmætum og og eftirsóttum lóðum?

Einar heldur því fram að það sé hagkvæmara að byggja nýtt hús á Sementsreitnum, heldur en að gera Landsbankahúsið upp. Svona lagað er ekki hægt að segja án þess að leggja fram kostnaðaráætlun og upplýsingar um fjármögnun verkefnisins. Er “hagkvæmt” að byggja skrifstofuhúsnæði á einhverjum verðmætustu byggingarlóðum á suðvesturhorninu? Spyr sú sem ekki veit, en vill gjarnan fá að vita.

Einar vill endurbyggja miðbæinn og horfa til framtíðar en ekki fortíðar. Hvað hann á við með því, veit ég ekki – en það er alveg ljóst að margir vilja einmitt horfa til fortíðar við skipulag bæja og borga og leiðrétta skipulagsmistök sem gerð hafa verið víða. Margir horfa einnig til hringrásarhagkerfis, kolefnisspors og virðingar fyrir sögu og menningu bæja og borga. Er ekki rétt að skoða þetta? Undirskriftasöfnun er enn í fullum gangi.

Bjarnheiður Hallsdóttir

Íbúi og útsvarsgreiðandi á Akranesi og stjórnarmaður í miðbæjarsamtökunum Akratorg.