Að móðga hagsmunaverði

Aðsend grein frá Einari Brandssyni: 

Eitt af þeim verkefnum sem kjörnir fulltrúar þurfa að takast á við í sínu starfi er að eiga í samskiptum við hagsmunasamtök af ýmsum toga. Hagsmunasamtök sem oft á tíðum eru stofnuð um stakt málefni og/eða  afmarkað verkefni. Eðli málsins samkvæmt verður hagsmunagæsla slíkra samtaka oft einsleit og sjóndeildarhringur frekar þröngur og málflutningur á stundum fyrirferðarmeiri en efni standa til. Því er mjög brýnt að kjörnir fulltrúar víki aldrei frá þeirri skyldu sinni að mæta hverju verkefni með heildarhagsmuni að leiðarljósi. 

Slíkt er stundum ekki til vinsælda fallið ekki síst hjá þeim sem hafa hvað þrengstan sjóndeildarhringinn. 

Móðgunarefni forystunnar

Þessi sannindi komu nokkuð berlega í ljós eftir litla grein er ég skrifaði í síðustu viku um hugmyndir um að breyta Landsbankahúsinu við Akratorg í Ráðhús Akraneskaupstaðar. Forysta Miðbæjarsamtakanna Akratorgs fann grein minni margt til foráttu og það sem hvað mest virtist fara fyrir brjóstið á forystunni var að ég sem kjörinn bæjarfulltrúi skyldi yfir höfuð vera að tjá mig um málið. Notaðar eru kunnar klisjur hagsmunavarða og hjólað í manninn, ekki málefnið. Bæjarfulltrúinn væri með skrifunum að lítilsvirða skoðanir forystunnar, hann er að skamma okkur, hann talaði niður til bæjarbúa, hunsi vilja bæjarbúa hvernig svosem viljinn hefur nú verið mældur í þessu máli, hrokafullur er hann líka svo nokkur atriði séu nefnd. Allt, eins og áður sagði, gamalkunnar klisjur sem kjörnir fulltrúar þekkja og verða að læra að þola. 

Fullyrðingar forystunnar 

Við þessu er fátt að gera því oft er því þannig farið að í ákafanum tapast hagsmunavörðum að horfa í eigin barm þegar þeir fella dóma um aðra. Hagsmunaverðir mega ekki vera móðgunargjarnir þó þeim sé bent á rangfærslur sem þeir setja fram.  

Því skulu nú  í fyllstu einlægni dregin fram atriði í málflutningi fyrrgreindra hagsmunavarða um þetta tiltekna mál. 

„Hvað segir þú? Viltu að bæjarsjóður greiði 200-300 milljónir til að lagfæra okkar eigið húsnæði eða borgi 2000-3000 milljónir til að byggja nýtt.“ Auðvitað sér hvert mannsbarn að þarna er verið að afvegaleiða umræðuna á mjög ámælisverðan hátt og/eða gefa í skyn að kjörnir fulltrúar séu reiðubúnir til þess að kasta milljörðum á glæ. Verði af nýju Ráðhúsi á það auðvitað að vera á einum stað og hýsa alla starfsmenn kaupstaðarins því tengdu. Ekki á mörgum stöðum. 

„Við í miðbæjarsamtökunum sem heita einmitt Akratorg-höfum oft velt því fyrir okkur þeirri hugmynd og ekki fundið nein haldbær rök gegn því önnur en; Afþvíbara! Það hefur nefnilega ekki verið skoðað eða rætt fyrir alvöru hvort hugmyndin sé góð eða ómöguleg.“ Þarna er forystan vísvitandi að gera lítið úr vinnu undanfarinna bæjarstjórna og starfsmanna bæjarfélagsins. Vinnu sem forystan ætti að hafa fylgst með.  

„Bæjaryfirvöld virðast ekki kæra sig um að ræða þetta mál og skoða fyrir alvöru heldur byggja nýtt stjórnsýsluhús við Mánabraut sem myndi líklega kosta 10 sinnum meira en það kostar að gera við og laga húsið við Akratorg.“ Enn einu sinni, í besta falli, afvegaleiðir, forystan umræðuna. Forystan hefur átt formlegt samtal bæði við Bæjarráð og Skipulags- og umhverfisráð bæjarins. Þau eru heldur ekki fá óformlegu samtölin sem forystan hefur átt við kjörna fulltrúa. Ég veit því ekki til þess að forystunni hafi verið neitað um samtal frá stofnun samtakana. Þessi ummæli eru því í besta falli mjög kaldar kveðjur til bæjaryfirvalda. 

„Við erum öll í sama liði“  Allir sjá að forysta sem ber sér á brjóst með þessum orðum er ekki að meta stöðuna rétt. 

Dæmi um góða lausn 

Í okkar ágæta bæjarfélagi höfum við ágæt dæmi hvernig þolinmæði og vönduð vinnubrögð leiða til farsællrar lausnar. Ég vil af þessu tilefni nefna húsnæði fyrir eldri borgara á Akranesi. Þar var afar rík krafa hagsmunavarða á hendur bæjarfulltrúum að félagsstarf eldri borgara ætti að koma fyrir í húsi sem hannað var sem vöruafgreiðsla. Þetta var þeirra hús. Bæjarfulltrúar vildu horfa til lengri tíma. Það mál kostaði svo sannarlega átök. Vöruafgreiðsluhúsið, sem var orðið barn síns tíma og að auki á “slæmum“ stað, var rifið. Upp reis sérhannað hús sem hýsir nú alla starfsemi eldri borgara. Eru allir sem ég hef heyrt í sammála að þar hafi vel tekist til.

Nauðsyn hagsmunasamtaka

Hagsmunasamtök eru í eðli sínu nauðsynlegur og eðlilegur fylgifiskur hvers samfélags sem byggir á lýðræði. Þau halda oftast á lofti viðhorfum og skoðunum sem að öðrum kosti gætu hreinlega gleymst í dagsins önn. Það er hins vegar grundvallaratriði að forysta slíkra samtaka sýni þá víðsýni og skilning að í hverju samfélagi eru uppi margar skoðanir á hverju því verkefni sem við blasir hverju sinni. Í lýðræðissamfélögum er hin endanlega ákvörðun hins vegar alltaf í höndum kjörinna fulltrúa. Það er þeirra hlutverk og skylda að horfa alltaf til heildarhagsmuna bæjarfélagsins. Þeirri ákvörðun og ábyrgð verður ekki vísað annað. 

Einar Brandsson
Höfundur er íbúi og bæjarfulltrúi á Akranesi.