Ráðhús á Akratorg – meira stuð fyrir minni pening – ekki vera alveg sama!

Aðsend grein frá miðbæjarsamtökunum Akratorg: 

Miðbæjarsamtökin þakka fyrir góðar viðtökur vegna átaksins “Fyrsta hjálp fyrir miðbæinn” og bjóða bæjarbúum til íbúafundar í Tónbergi mánudaginn 15. apríl klukkan 20.00. (húsið opnar kl. 19.00 og við bjóðum upp á kaffi og kleinur.

Bæjarstjóri og bæjarstjórn hafa sagt: Gamla Landsbakahúsið við Akratorg hentar ekki sem ráðhús. Við spyrjum; Hvers vegna ekki? Formaður bæjarráðs sagði á dögunum að það væri búið að gera úttekt á húsinu tvisvar ef ekki þrisvar með ráðhús í huga og útkoman hafi alltaf verið sú sama: Gengur ekki. Við höfum óskað eftir að fá að sjá gögn sem styðja orð formannsins fyrir fundinn.

Það er eitt að langa ekki að gera eitthvað en annað að komast alls ekki vegna ófærðar. Við teljum að í þessu tilfelli sé ekki ófært heldur einfaldlega ekki vilji.

Málefnasamningur Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks vegna meirihlutasamstarfs í bæjarstjórn Akraness kjörtímabilið 2022 – 2026 hefst á þessum orðum:
„Leitast verður við að eiga gott samstarf við alla flokka í bæjarstjórn og að stjórnsýslan snúist um að veita íbúunum góða þjónustu með hagsmuni þeirra að leiðarljósi. Lögð verður áhersla á gott samstarf við íbúa og áframhaldandi uppbyggingu og þróun á virku íbúalýðræði. Áfram verður unnið að því að styrkja fjárhagsstöðu bæjarsjóðs“.

Hér eru svo nokkur atriði úr samningnum:

* Gera framtíðaráætlun varðandi húsnæði stjórnsýslunnar.
* Gera framtíðaráætlun um skipulag miðbæjarins í góðu samtali við íbúa.
* Virkja og efla miðbæinn í virku samtali við íbúa.
* Horfa ávallt til lýðheilsusjónarmiða í skipulagi nýrra hverfa og við þéttingu byggðar í eldri hverfum bæjarins.
*Sinna vel viðhaldi á eignum bæjarins og gera viðhaldsáætlanir sem eru sýnilegar öllum.

Allt smellpassar þetta við trú okkar í Miðbæjarsamtökunum á því að gamla Landsbankahúsið við Akratorg geti hentað mjög vel sem ráðhús – ef vilji er fyrir því. Það gæti þar að auki gæti hýst lítinn veitingastað sem gæti sinnt þörfum bæði starfsfólks og gesta.

Við teljum að þetta sé góð hugmynd og hagkvæm á margan hátt í ljósi stöðunnar hjá okkur á Akranesi í dag:

Það vantar líf í miðbæinn – það er aðalatriði málsins. Við tölum um FYRSTU HJÁLP og þetta yrði táknrænt fyrsta skref.

Það vantar húsnæði undir starfsemi bæjarskrifstofu og til stendur að innrétta leiguhúsnæði fyrir hlusta af starfseminni.

Við eigum ekkert ráðhús.

Húsið sem um ræðir stendur á fullkomnum stað fyrir ráðhús – þar sem flest ráðhús standa í heiminum. Við miðbæjartorgið.

Við Akurnesingar eigum þetta glæsilega 1400 fm hús við Akratorg sem vill vera ráðhús.

Fermetraverð í byggingu opinbers húsnæðis er 1200-1400 þúsund í dag segja sérfræðingar sem við höfum talað við. 1400fm x 1200 þús = 1.680 milljónir.

Bæjaryfirvöld vilja losna við húsið og selja það lekt og laskað. Hvað eru verktakar tilbúnir að borga fyrir það eins og það er í dag? Verður það svo kannski rifið á endanum?

Þegar búið er að gera húsið upp má selja það fyrir toppverð síðar ef draumur um nýtt og stærra ráðhús lifir þessa og næstu bæjarstjórnir.

Húsið er ein merkasta bygging Akurnesinga að margra mati, teiknað af Skagamanni og vel byggt af Skagamönnum – Guðmundi Magnússyni og hans mönnum – vandað í alla staði.

Það er hægt að hreinsa innan úr því og innrétta í takt við nýja tíma og Arkítektinn búinn að gefa grænt ljós á það í viðtali við Miðbæjarsamtökin sem finna má á Youtube.

Húsið er hannað fyrir skrifstofustarfsemi og móttöku fólks.

Húsið yrði loksins upplýst og líflegt en ekki eins og draugahús í hjarta bæjarins.

Umhverfisvænasta húsið er alltaf húsið sem stendur.

Það er í takt við nýja tíma hvað varðar umhverfismál og alltaf ódýrara að laga gamalt hús en byggja nýtt. Þess vegna rífum við ekki húsin okkar og byggjum ný. Akraneskaupstaður er við – og við borgum fyrir það sem er gert.

45 manna vinnustaður við Akratorg, fólksins sem stjórnar bænum mun óhjákvæmilega setja aukið líf í miðbæinn. Eða hvað?

Stjórnarfólk um miðbæjarsamtökunum mun opna fundinn.

Páll Jakob Líndal umhverfissálfræðingur sem er fastur pistlahöfundur í Samfélaginu í nærmynd á Rás 1 talar um miðbæinn, umhverfissálfræði, arkítektúr, byggingar, umhverfismál ofl.

Fundargestum býðst að spyrja kjörna bæjarfulltrúa spurninga – en þeim bjóðum við sérstaklega til fundarins til að fá þeirra sýn á miðbæjar og ráðhúsmál í pallborði sem Bjarnheiður Hallsdóttir stýrir.

Skagafólkið Benedikt Kristjánsson tenor – Jonfri, Hulda Gestsdóttir, Lárus Sighvatsson og fleiri munu spila og syngja fyrir fundargesti.

Við afhendum bæjarstjóra formlega undirskriftalistana sem legið hafa víðsvegar um bæinn undanfarið og á island.is.

Við endum líka uppboðið á mynd Bjarna Þórs sem hann gaf til styrktar Akratorgi og átakinu. Tilboð sendist á [email protected] og sama netfang gildir fyrir spurningar fyrir miðbæjarsamtökin eða bæjarstjórn

Fundarstjóri verður Gísli Gíslason fyrrverandi bæjarstjóri á Akranesi.

Verið öll velkomin og fyllum Tónberg!

Við í Miðbæjarsamtökunum Akratorg höfum hvatt bæjaryfirvöld til að skoða af alvöru hvort gamla landsbankahúsið gæti orðið ráðhús okkar Akurnesinga. Kannski munu bæjaryfirvöld sannfæra okkur um að hugmyndin sé vonlaus og þau segja okkur frá framtíðarsýn sinni sem pakkar okkar saman þannig að hún veðrur aldrei rædd meir – en kannski skipta þau um skoðun? Það er heilbrigt að geta skipt um skoðun og við erum opin fyrir öllum góðum hugmyndum.

RÁÐHÚS Á AKRATORG – MEIRA STUÐ FYRIR MINNI PENING – EKKI VERA ALVEG SAMA!