Nemendur í ÍSAN áfanga í FVA fóru í eftirminnilega safnaferð

Í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi er boðið upp á áfanga fyrir nemendur sem hafa annað móðurmál en íslensku. Áfanginn kallast ÍSAN og sjá Sandra Y. Castillo Calle og Vilborg Bjarkadóttir um kennsluna. 

Í tilkynningu frá FVA kemur fram að í áfanganum sé  m.a. áhersla á orðaforða dagslegs lífs, talað mál og að auka sjálfstraust í að tala íslensku. Hluti námsins er að kynna sér íslenskt samfélag og sögu. 

Sandra Y. Castillo Calle er spænskukennari og sérfræðingur í að kenna íslensku sem annað tungumál og Vilborg Bjarkadóttir er myndlistarkennari og þjóðfræðingur. Nýverið fóru nemendur í safnaferð og segir Vilborg þannig frá ferðinni í grein sem birt er á samfélagsmiðlum FVA: 

„Alla leiðina til Reykjavíkur mætti okkur fögur fjalla- og sjávarsýn í gegnum bílrúður strætisvagnsins. Þegar við komum á Þjóðminjasafnið var ákveðin spenna í hópnum enda eftirvæntingin fyrir ferðinni orðin talsverð mikil, þar sem ferðin hafði verið í undirbúningi má segja alla önnina. 

Við fengum frábæra leiðsögn um grunnsýningu safnsins sem ber heitið „Þjóð verður til: Menning og samfélag í 1200 ár.“ Á þessari veigamiklu sýningu er reynt að draga upp eins skýra og heilstæða mynd af menningarsögu Íslendinga og unnt er, með því að setja muni í sögulegt samhengi í þeim tilgangi að sviðsetja söguna og gera hana ljóslifandi handa sýningargestum. Sýningin er í eðli sínu hefðbundin sögusýning þar sem Íslandsagan er rakin í réttri tímaröð frá landnámi til nútímans, en nær þó að sýna okkur það hvernig Ísland fór frá því að vera mjög einsleitt samfélag yfir í fjölmenningarlegt samfélag. 


Nemendur voru sérlega áhugasamir og spurðu fjölda spurninga og tóku ógrynni af myndum af allskonar athyglisverðum munum eins og Þórslíkneskinu, sviðsettri baðstofu, bátum, skartgripum og gömlum búningum. 

Ljóst var að ferðin var mjög vel heppnuð í alla staði og nemendur voru auðvitað algjörlega til fyrirmyndar og skólanum til sóma. Óhætt er að segja að heimsóknin hafi farið með hópinn í æsilegt tímaflakk þar sem fortíðin varpaði skemmtilegri sýn á samtímann þ.e. að hún minnir okkur á það að fortíð og nútíð eru stundum óbrotnari línur en virðist í fyrstu.“