Karlalið ÍA hefur skorað flest mörk allra liða í fyrstu þremur umferðum Bestu deildarinnar í knattspyrnu. ÍA lagði Fylki 5-1 á heimavelli s.l. sunnudag – þar sem að Hinrik Harðarson skoraði sitt fyrsta mark fyrir ÍA, Steinar Þorsteinsson, Jón Gísli Eyland Gíslason, Viktor Jónsson og Albert Hafsteinsson bættu síðan við mörkum fyrir ÍA í kjölfarið.
Theodór Ingi Óskarsson skoraði sitt fyrsta mark í meistaraflokki fyrir Fylki þegar hann minnkaði muninn fyrir gestina undir lok leiksins. Þess má geta að hann á ættir að rekja á Akranes – en faðir hans er Skagamaðurinn Óskar Guðbrandsson.
Skagamenn eru í öðru sæti deildarinnar og hefur liðið skorað alls 9 mörk í fyrstu þremur umferðunum – flest allra liða. Víkingur, KR og Breiðablik koma þar næst, öll með 7 mörk.
Næsti leikur ÍA er gegn FH á heimavelli sunnudaginn 28. apríl kl. 14:00.