Domusnova og FastVest sameinast

Nú nýverið var skrifað undir samning þar sem að fasteignasölurnar Domusnova og Fasteignamiðlun Vesturland eða FastVest sameina krafta sína. Þetta kemur fram í tilkynningu. 

Fasteignasölurnar verða fyrst um sinn reknar í nafni beggja aðila og mun sameinuð starfsemi verða staðsett í útibúi að Kirkjubraut 40 og Esjubraut 49 fyrst um sinn.

FastVest á sér yfir 30 ára farsæla sögu á Akranesi, fasteignasalan var stofnuð af Soffíu Sóleyju Magnúsdóttur árið 1993 og hefur hún allar götur síðan séð um rekstur fasteignasölunnar. Á síðustu árum hefur dóttir Soffíu, hún Ragnheiður Rún Gísladóttir fasteignasali verið hægri hönd Soffíu.
Domusnova Fasteignasala er ein af stærri fasteignasölum landsins, með höfuðstöðvar í Kópavogi og auk útibús á Akranesi hefur Domusnova starfrækt útibú á Selfossi.

Þær mæðgur Ragnheiður og Soffía munu verða í fararbroddi sameinaðra fasteignasala og munu þær einbeita sér að því að bjóða Akurnesingum og nærsveitabyggðum góða og faglega þjónustu hér eftir sem endra nær og nýta sér í leiðinni gæðastaðla Domusnova Fasteignasölu við verk sín.