Bæjarstjórn Akraness áformar að hefja undirbúning að nýju ráðhúsi/stjórnsýsluhúsi með möguleika á leigu fyrir fleiri aðila, t.d. ríkisstofnanir og þar á meðal nýja heilsugæslustöð HVE.
Hugmynd bæjarstjórnar er að nýtt stjórnsýsluhús rísi á Mánabraut 20, þar sem skrifstofuhús Sementsverksmiðjunnar stendur í dag. Þetta kemur fram í grein sem birt er á vef Akraneskaupstaðar. Markmiðið sé að tengja nýja byggð við Sementsreit við gamla miðbæinn. Stefnt er að því að í ríkisstofnanir leigi rými í stjórnsýsluhúsinu, þar á meðal HVE, auk möguleika á menningar – sýningarrými.
Þar kemur einnig fram að ekki standi til að flytja bæjarskrifstofur Akraness í Landsbankahúsið við Akratorg. Einfaldlega vegna þess að húsið sé of lítið og henti ekki fyrir þá starfsemi. Markmið bæjarstjórnar sé að selja húsið, ekki rífa það.
Markmið Akraneskaupstaðar sé að margir vinnustaðir flytji starfsemi sína á miðbæjarsvæðið á næstu árum – vinnustaðir sem veita íbúum fjölbreytta þjónustu.
Bæjarstjórn hefur hug á því að endurhanna Kirkjubrautina á milli Stillholts og Merkigerðis. Með það að markmiðið að gera aðkomuna að miðbænum fallegri.