Nemendur Brekkubæjarskóla fara á kostum á Diskóeyjunni – myndasyrpa

Söngleikurinn Diskóeyjan hefur slegið í gegn á fjölum Bíóhallarinnar á Akranesi – en nemendur í Brekkubæjarskóla fara þar á kostum í ýmsum hlutverkum.

Diskóeyjan var ein vinsælasta plata ársins 2012 þar sem að lagið Gordjöss fór í hæstu hæðir vinsældalista og var verkið sett upp í fyrsta sinn í Borgarleikhúsinu árið 2012. 

Bragi Valdimar Skúlason og Óttarr Proppé eru hugmyndasmiðirnir á bak við plötuna og söngleikinn. Hjörvar Gunnarsson og Gunnhildur Vilhjálmsdóttir skrifuð handritið fyrir útfærsluna hjá Brekkubæjarskóla og leikstýra. Sóley Brynjarsdóttir er danshöfundur. Rúmlega 110 nemendur úr 8.-10. bekk Brekkubæjarskóla koma að þessu verkefni með einum eða öðrum hætti.    

Sagan er um systkini sem send eru á Diskóeyjuna til að læra á lífið og tilveruna hjá prófessornum, vinum hans og furðuverum. Diskóeyjan er fjörugur og litríkur söngleikur sem er ferðalag inn í diskóveröldina.

Daníel og Rut eru send í Fágunarskóla fyrir þæg og óspennandi börn þar sem Prófessorinn tekur á móti þeim til að kenna þeim að vera ekki eins þurr og leiðinleg.

Vandamál kemur upp á Diskóeyju þegar Ljótu tvíburasysturnar koma og ætla að yfirtaka skólahúsnæðið til að opna Spa. Með diskóeinvígi aldarinnar ná Prófessorinn og Ljótu tvíburarnir að sættast.

Diskóeyjan er skemmtilegur söngleikur fyrir alla fjölskylduna með glimmersprengjuregni og pallíettuglansi.

Nánari upplýsingar um næstu sýningar og miðasölu – smelltu hér

Hér fyrir neðan er myndasyrpa frá Brekkubæjarskóla en Vera Kristín Jónasdóttir tók myndirnar. 

Einnig er innslag úr fréttum Stöðvar 2 – sem Magnús Hlynur Hreiðarsson gerði.