Grundaskóli fékk tilnefningu frá Heimili og skóla fyrir „Stefnan sett“ og „Úlfur Úlfur“

Grundaskóli var tilnefndur til foreldraverðlauna Heimilis og skóla árið 2024 fyrir verkefnin Stefnan sett og söngleikinn Úlfur Úlfur. 

Þetta kemur fram á vef skólans og þar segir: 

„Verkefnið Stefnan sett er heildstætt verkefni þar sem námsgreinar eru samþættar og áherslan er á þætti eins og styrkleika, sjálfsþekkingu og áhugasvið. Verkefninu lauk síðan með að nemendur mættu í sviðsett atvinnuviðtal innan skólans.

Það var öflugt samstarf við foreldra í verkefninu. Þeir voru bæði góður stuðningur við börnin sín við gerð ferilskránna og í undirbúningi fyrir atvinnuviðtalið. Einnig héldu nokkrir foreldrar starfskynningar fyrir allan árganginn sem vakti mikla lukku meðal nemenda og starfsfólks.

Verkefnið Úlfur Úlfur var lokaverkefni nemenda í 10. bekk. Úlfur Úlfur er söngleikur þar sem allir nemendur tók þátt á einn eða annan hátt. Verkefninu lauk með nokkrum sýningum á sal skólans fyrir fullu húsi.

Það var einnig öflugt samstarf við foreldra í þessu verkefni. Foreldrar komu að mörgum verkum eins og t.d. uppsetningu á sviði, hárgreiðslu og förðun, eldamennsku, vinnu á sýningum, aðstoð við að sauma búninga ásamt fleiri verkefnum.

Við erum ótrúlega stolt af miklu og góðu samstarfi við foreldra.
Saman erum við sterkari.“

Hér fyrir neðan má sjá myndband og myndasafn frá sýningunni frá skagafrettir.is