Valdís fékk viðurkenningu fyrir frumkvöðlastarf í nýsköpun

Valdís Fjölnisdóttir framkvæmdastjóri hjá Breið þróunarfélag hlaut nýverið viðurkenningu Sjávarklasans fyrir ötult frumkvöðlastarf í nýsköpun.

Í umsögn segir „Breið hefur náð ótrúlegum árangri í að byggja upp stemmingu á Akranesi fyrir nýsköpun og samstarfi m.a. í tengslum við bláa hagkerfið. Vinnslurými Breiðar, þar sem fyrirtæki hafa getað gert tilraunir, hafa verið mjög mikilvæg viðbót fyrir sprotafyrirtæki. Þannig aðstöðu hefur Sjávarklasinn ekki haft á sínum snærum og því hefur Breið fyllt upp í mikilvægt skarð í þeim efnum fyrir sprota. Valdís hefur sýnt að klasar eiga erindi um allt land og geta aukið verðmætasköpun og kraft.“

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra afhenti viðurkenningar Sjávarklasans til fjögurra einstaklinga sem hafa eflt nýsköpun innan bláa hagkerfisins og stuðlað að aukinni samvinnu.

Viðurkenningarnar voru afhentar á opnu húsi Sjávarklasans sem var haldið 16. maí sl. Við sama tækifæri kynnti ráðherra sér fjölbreytta starfsemi nýsköpunarfyrirtækja sem starfa í samvinnu við og innan klasans.

Nánar á vef Stjórnarráðsins: 

Á myndinni eru frá vinstri; Karl Birgir Björnsson frá Hefring Marine, Pétur Hafsteinn Pálsson sem tók við viðurkenningunni fyrir hönd dóttur sinnar, Erlu Óskar Pétursdóttur frá Marine Collagen, Valdís Fjölnisdóttir framkvæmdastjóri hjá Breið nýsköpunarsetri og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra.