Flottur árangur hjá Sundfólki úr ÍA á AMÍ stórmótinu

Viktoria Emilia Orlita, Elin Sara Skarphèðinsdóttir, Kajus Jatautas, Eymar Ágúst Eymarsson, Mangirdas Moliusis , Karen Anna Orlita og Kristófer Guðjónsson sundfólk úr röðum Sundfélags Akraness kepptu nýverið á Aldursflokkameistaramóti Íslands, AMÍ.

Mótið fór fram í Reykjanesbæ en um 230 keppendur, 15 ára og yngri, tóku þátt og komu þeir frá 11 félögum.

Til þess að komast inn á AMÍ þurfa keppendur að hafa náð tíma lágmörkum.

Sundfólkið úr ÍA bætti árangur sinn mikið og mörgum markmiðum var náð en ÍA endaði í 6. sæti í heildarstigakeppninni.

Kajus, Viktoria, Eymar og Karen Anna settu nýtt Akranesmet í 4×50 metra boðsundi þar sem að allir syntu skriðsund. Þau komu í mark á 1.56.08 mínútum og bættu 11 ára gamalt met sem var 1.59.58 mín.

Skagafólkið kom heim með fjögur silfur og 1 brons, Kajus vann silfur í 200 m baksundi í flokki 14-15 ára og er hann á yngra árinu. Kristófer kom heim með tvö silfur og eitt brons í flokki 11 ára og yngri.