Siggi Tomm og Björn Steinar sigurvegarar á Irish Open pílumótinu

Það var mikið um að vera íþróttahúsinu við Jaðarsbakka s.l. föstudag þar sem að Irish Open mótið í 501 tvímenningi fór fram. Alls mættu 37 lið til leiks – en í fyrra voru liðin rétt rúmlega 20 alls. 

Keppendur voru á öllum getustigum, margir af bestu pílukösturum landsins tóku þátt ásamt keppendum sem voru að taka þátt á sínu fyrsta móti. 

Sýnt var beint frá mótinu á Youtube rás IATV og var þetta í fyrsta sinn sem sýnt er frá pílukeppni á ÍATV. 

Skagmamaðurinn Sigurður Tómason, eða Siggi Tomm, sigraði ásamt félaga sínum Birni Steinari Brynjólfssyni. Þeir léku til úrslita gegn Pétri Guðmundssyni og Arngrími Antoni Ólafssyni, sem eru fulltrúar Íslands á HM landsliða í tvímenning. Úrslitaleikurinn endaði 4-3 fyrir Sigga Tomm og Björn Steinar.