Mats- og hæfisnefnd um sérnám lækna hefur viðurkennt Heilbrigðisstofnun Vesturlands sem kennslustofnun til að annast sérnám lækna í bæklunarlækningum, í samvinnu við bæklunarlækningar á Landspítala. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.
Heilbrigðisráðherra skipaði nýja mats- og hæfisnefnd um sérnám lækna í mars 2024.
Meðal verka mats- og hæfisnefndar er að meta hæfi heilbrigðisstofnana eða deilda innan þeirra til að öðlast viðurkenningu sem kennslustofnanir til að annast sérnám lækna, þ.m.t. sérnámsgrunn.
Nefndin kom fyrst saman í apríl á þessu ári og hefur nú, eftir úttekt á starfsemi og kennslu, veitt bæklunarlækningum á Heilbrigðisstofnun Vesturlands viðurkenningu sem kennslusérgrein og kennsludeild, í samvinnu við bæklunarlækningar á Landspítala.
Haustið 2022 var ný og fullkominn skurðstofa fyrir liðskiptaaðgerðir tekin í notkun á Sjúkrahúsinu á Akranesi.
Síðan þá hefur afkastageta stofnunarinnar í liðskiptaaðgerðum tvöfaldast en 357 liðskiptaaðgerðir voru framkvæmdar á Sjúkrahúsinu á Akranesi á árinu 2023 og hafa aldrei verið fleiri hjá stofnuninni.
Árið 2021 voru framkvæmdar 155 slíkar aðgerðir.