Kvennalið ÍA landaði góðum 3-2 sigri í gær í næst efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. ÍA lék gegn ÍR á útivelli og skoraði Erla Karitas Jóhannesdóttir öll þrjú mörk ÍA.
Erla Karitas skoraði fyrsta mark leiksins á 7. mínútu og staðan var 1-0 í hálfleik fyrir ÍA. Erla Karitas kom ÍA í 2-0 á 50. mínútu, ÍR minnkaði muninn 9 mínútum síðar. Erla Karitas kom ÍA í 3-1 með marki aðeins mínútu síðar eða á 60. mínútu. ÍR minnkaði muninn í eitt mark á 90. mínútu.
Með sigrinum er ÍA í fjórða efsta sæti Lengjudeildarinnar með 22 stig eftir 14 umferðir. Grótta og ÍBV eru einnig með 22 stig í sætunum þar fyrir ofan en liðin eiga leik til góða á ÍA.
Austfjarðaliðið FHL er langefst í deildinni með 34 stig.
FHL varð til með samvinnu Fjarðabyggðar, Hattar á Egilsstöðum og Leiknis Fáskrúðsfirði og þaðan er skammstöfunin og nafn liðsins komið. Árið 2023 dró Leiknir sig úr samstarfinu og KFF varð að Knattspyrnufélagi Austfjarða (KFA) sem núna stendur saman með Rekstrarfélagi Hattar að rekstri og umsjá FHL.
ÍR er í neðsta sæti deildarinnar.