Ingimar Elí tekur við sem framkvæmdastjóri KFÍA í lok þessa árs

Ingimar Elí Hlynsson er nýr framkvæmdastjóri hjá Knattspyrnufélagi ÍA. Eyjólfur Vilberg Gunnarsson, sem hefur gegnt þessu starfi frá því í mars á síðasta ári, sagði starfinu sínu lausu vegna flutninga erlendis.  Ingimar Elí tekur við starfinu þann 1. desember á þessu ári.

Í tilkynningu frá KFÍA kemur eftirfarandi fram: 

Ingimar Elí kemur frá Icelandair þar sem hann hefur starfað sem sölustjóri. Hann hefur lokið BS námi í sálfræði & viðskiptafræði með áherslu á mannauðstjórnun. Ingimar Elí þekkir félagið vel en hann hefur m.a. starfað sem, leikmaður, þjálfari, setið í aðalstjórn og tók við hlutverki formanns barna- og unglingaráðs nú í vor.

Ingimar Elí mun hefja störf hjá félaginu þann 1. desember þegar störfum hans lýkur hjá núverandi vinnuveitanda.

Eggert Herbertsson, formaður Knattspyrnufélags ÍA;

„Ég vil fyrir hönd Knattspyrnufélags ÍA þakka Eyjólfi fyrir gott samstarf og frábært starf þessi tvö tímabil og óska honum velfarnaðar í næstu verkefnum. Einnig vil ég bjóða Ingimar Elí velkominn til starfa. Ingimar hefur starfað í stjórn félagsins og þekkir það vel og verður lykilmaður í spennandi verkefnum félagsins á næstu misserum“

Eyjólfur Vilberg Gunnarsson:
„Undanfarin tvö tímabil hafa verið lærdómsrík, árangursrík og skemmtileg. Félagið er á góðum stað í því uppbyggingarferli sem unnið er að og á ég von á að afrakstur þess komi í ljós á næstu árum. Ég hef kynnst mörgu afar duglegu og góðu fólki sem leggur mikið til félagsins og fundið hvernig hjarta Skagamanna slær. Ég er þakklátur fyrir þennan góða tíma og hlakka til að fylgjast með félaginu í framtíðinni. Áfram ÍA!“

Ingimar Elí Hlynsson
„Ég er afar þakklátur fyrir það traust sem mér er sýnt af stjórn Knattspyrnufélags ÍA. Það eru mjög spennandi og metnaðarfull áform framundan sem ég er spenntur fyrir að vinna að ásamt öflugum hópi fólks sem kemur að starfi félagsins.“