Vilhjálmur Birgisson gagnrýnir fyrrum eigendur Skagans 3X og óskar eftir svörum

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness og Starfsgreinasambands Íslands er ekki sáttur við þá stöðu sem komin er upp vegna sölu eigna úr þrotabúi Skagans 3X – en hátæknifyrirtækið óskaði eftir gjaldþrotaskiptum í júlí á þessu ári. 

Fjárfestar sýndu því áhuga að kaupa eignir þrotabúsins, en ekki náðist samkomulag um sölu á fasteignum sem hýstu starfsemi Skagans 3X.

Vilhjálmur skrifaði pistil á fésbókarsíðu sína og er hann í heild sinni hér fyrir neðan: 

„Hvað var þess valdandi að ekki var hægt ná samkomulagi við fjölskyldu Ingólfs Árnasonar, var það græðgi, óbilgirni eða eitthvað annað?

Eins og allir Akurnesingar vita reið yfir gríðarlega þungt högg þegar tilkynnt var að Skaginn 3X hafi óskað eftir að verða tekið til gjaldþrotaskipta. Við þessa ákvörðun misstu 128 starfsmenn lífsviðurværi sitt og sveitarfélagið varð fyrir gríðarlegu höggi, meðal annars vegna tapaðra útsvarstekna.

Strax í júlí kviknaði vonarneisti þegar Helga Jóhannessyni skiptastjóra þrotabúsins barst tilboð í eignir Skagans 3X en það tilboð var háð því að fasteignir Skagans 3X við Krókalón fengjust keyptar en þær eignir voru í eigu fjölskyldu Ingólfs Árnasonar fyrrverandi eiganda Skagans 3X.

Ég sem formaður Verkalýðsfélags Akraness og harður stuðningsmaður míns góða sveitarfélags hef lagt mig í líma við að fylgjast vel með þessum viðræðum með hagsmuni minna félagsmanna og míns sveitarfélags að leiðarljósi.

Eftir mínum upplýsingum voru áform þessara fjárfesta að endurreisa starfsemi Skagans 3X hér á Akranesi að nýju og af fullum krafti en á bakvið þennan fjárfestingahóp voru samkvæmt mínum heimildum afar sterkir aðilar úr sjárútvegi og iðnaði sem og fjársterkir aðilar.

Í morgun fékk ég þau sorgartíðindi að ekki hefði náðst samkomulag við fjölskyldu Ingólfs Árnasonar um kaup á fasteignunum sem voru forsenda fyrir því að þessi fjárfestingahópur myndi ráðast í að endurreisa starfsemi fyrirtækisins.

Ítrekaðar tilraunir til að selja eigur Skagans 3x í heilu lagi hafa ekki gengið eftir og það sem alls ekki mátti gerast er að raungerast sem er að fyrirtækið verður selt í bútum. Sögu fyrirtækisins virðist því vera lokið á Akranesi og er þetta enn eitt rothöggið sem okkar góða samfélag verður fyrir hvað atvinnumál varðar.

Ég ætla að leyfa mér að segja að það er ekki og á ekki að vera einkamál fjölskyldu Ingólfs Árnasonar og annarra hvað varð þess valdandi að ekki tókst að endurreisa fyrirtækið enda liggur lífsviðurværi 128 fjölskyldna undir sem og gríðarlegt tekjufall fyrir Akraneskaupstað sem klárlega mun bitna á velferð bæjarbúa.

Þetta er mér óskiljanlegt því eftir mínum upplýsingum hvíldi skuld fyrir á þriðja milljarð á fasteignum fyrirtækisins og samkvæmt þeim upplýsingum voru þessar skuldir komnar þegar Baader keypti fyrirtækið á sínum tíma.

Samkvæmt þessum heimildum lagði Helgi Jóhannesson skiptastjóri þrotabúsins gríðarlega mikið á sig til að þessi áform um að endurreisa fyrirtækið myndu ganga upp þar sem hann horfði bæði á hagsmuni kröfuhafa sem og hagsmuni samfélagsins hér á Akranesi. Ég hef líka vitneskju um að bæjaryfirvöld hafi lagt mikið á sig til að liðka fyrir að hægt yrði að endurreisa fyrirtækið hér á Akranesi og að áform þessara fjársterku aðila myndu geta gengið eftir

Þrátt fyrir það hafnaði fjölskylda Ingólfs Árnasonar öllum hugmyndum sem hefðu tryggt endurreisn fyrirtækisins.

Ég ítreka það sem áður hefur komið fram að þetta er ekki og á alls ekki að vera einkamál fjölskyldu Ingólfs enda erum við að tala um afkomu 128 fjölskyldna og útsvarstekjufall sem nemur yfir 400 milljónum fyrir Akraneskaupstað eða sem nemur 6,5% af útsvarstekjum.

Til að setja þetta tekjufall sem okkar samfélag er að verða fyrir í samhengi þá er þetta eins og Reykjavíkurborg myndi missa útsvarstekjur upp á 7,2 milljarða.

Þetta er óskiljanlegt og ég spyr hver er samfélagsleg ábyrgð þeirra sem taka slíka ákvörðun og koma þannig í veg fyrir endurreisn fyrirtækisins? Hvað veldur þessari framkomu gagnvart samborgurum þeirra og samfélaginu?

Hér krefst ég þess að að þetta mál verði upplýst og hvað er ósagt í þessu máli en hér eru miklir hagsmunir undir og þeim aðilum sem komu að þessum viðræðum ber að upplýsa hvað varð þess valdandi að við Akurnesingar þurfum að þola þetta efnahagslega hnefahögg.

Er það græðgi, óbilgirni eða er það eitthvað annað? Hins vegar eru það eru engir aðrir en þeir sem þekkja alla þræði þessara samningaviðræðna sem geta svarað því. Þær upplýsingar og svör við þessum spurningum eigum við Akurnesingar svo sannarlega rétt á að fá.

Ég tek svo sannarlega undir með skiptastjóra sem sagði orðrétt í hádegisfréttum:

„„Nei, því miður,“ segir Helgi. „Þrátt fyrir mikla vinnu þá hefur ekki tekist að selja eignir þrotabúsins í heilu lagi. Og þeim tilraunum er nú hætt.“ Helgi segir að nú taki við að reyna að selja eignir fyrirtækisins í bútum. „Og það mun þá ekki verða ræst sú starfsemi sem þarna var, því miður.“

Já ég segi eins og skiptastjóri því miður og núna skuldar fjölskylda Ingólfs Árnasonar bæjarbúum svör hvað var þess valdandi að samfélagsið þarf að þola þetta efnahagslega hnefahögg sem birtist í 128 töpuðum störfum og yfir 400 milljónum í útsvarstekjur.