Aðsend grein frá Grenjar ehf.
Í kjölfar fréttaflutnings og yfirlýsinga í tengslum við endurreisn Skagans 3X ehf. vilja Grenjar ehf. koma á framfæri þessari yfirlýsingu.
Grenjar ehf. eru eigendur fasteigna sem Skaginn 3X ehf. leigði fyrir starfsemi sína. Fjölskyldan á bak við Grenjar ehf. byggði upp Skagann ehf. á sínum tíma og með frábæru starfsfólki varð úr glæsilegt fyrirtæki á Akranesi. Rekstur Skagans ehf. og fleiri félaga var síðar settur inn í nýtt félag, Skagann 3X ehf.
Árið 2020 seldi fjölskyldan 60% hlut sinn í samstæðu Skagans 3X til alþjóðlegs stórfyrirtækis í Þýskalandi. Til að liðka fyrir samningaviðræðum samþykktu Grenjar ehf. að fasteignir félagsins væru áfram að veði fyrir skuldum Skagans ehf. við Íslandsbanka hf. Þetta var gert með því skilyrði að nýr meirihlutaeigandi myndi fljótlega leggja fram ný veð sem kæmu í stað fasteigna Grenja ehf.
Síðar, þegar félög í samstæðu Skagans 3X voru seld að fullu til þýska stórfyrirtækisins, og nýir eigendur tóku alfarið við stjórn fyrirtækisins, var ákveðið að fara í fjárhagslega endurskipulagningu á Skaganum 3X. Í ljósi aðstæðna á þeim tíma var fallist á að tilteknar fasteignir Grenja ehf. væru að veði fyrir nýju láni Skagans 3X ehf. hjá Íslandsbanka hf. Þetta var gert í þeirri trú að það myndi stuðla að áframhaldandi starfsemi Skagans 3X ehf. á Akranesi enda starfsemin mikilvæg samfélaginu og fjölskyldunni sem stóð að stofnun félagsins.
Skaginn 3X ehf. var úrskurðað gjaldþrota þann 4. júlí sl. og er nú sú hörmulega staða komin upp, eins og þekkt er orðið, að 130 manns hafa misst vinnuna sem hefur mikil áhrif á starfsfólkið, fjölskyldur þeirra og samfélagið allt á Akranesi.
Eftir að Skaginn 3X ehf. var úrskurðað gjaldþrota hefur skiptastjóri leitast við að finna kaupendur að rekstri Skagans 3X ehf. Grenjar ehf. hafa ekki fengið að taka þátt í viðræðum við skiptastjóra vegna fasteignanna né við þá fjárfestahópa sem hafa sýnt endurreisn félagsins áhuga og hefur Grenjum ehf. verið haldið utan við slíkar viðræður þrátt fyrir óskir um annað. Fyrst og fremst hafa Grenjar ehf. því getað fylgst með framvindu mála í fjölmiðlum.
Grenjar ehf. hafa ávallt verið til í að leigja eða selja væntanlegum kaupendum að rekstrinum fasteignir sínar sem starfsemi Skagans 3X ehf. var í en engar slíkar beiðnir hafa komið fram. Engin breyting er á þessari afstöðu Grenja ehf.
Það er vitaskuld mikið tjón fyrir Grenjar ehf. ef ekki er rekstur í húsnæði félagsins og því fara hagsmunir Grenja ehf. og nærsamfélagsins á Akranesi saman.
Hafandi framangreint í huga leituðu Grenjar ehf. til Íslandsbanka hf. og lögðu til að möguleg ágreiningsmál varðandi veðbönd yrðu lögð til hliðar, svo að endurreisnarvinna félagsins mætti hefjast án tafar. Því miður hafnaði bankinn þessari tillögu ásamt öllum öðrum tillögum frá Grenjum ehf.
Hins vegar fór Íslandsbanki hf. fram á það við Grenjar ehf. að félagið myndi afsala til bankans óveðsettum lóðum á athafnasvæði Skagans 3X ehf., auk þeirra fasteigna sem eru veðsettar bankanum. Þessu fylgdi að Grenjar ehf. mættu ekki leita réttar síns vegna málsins hjá dómstólum gagnvart Íslandsbanka hf. í tengslum við slík afsöl. Grenjar ehf. gátu að sjálfsögðu ekki samþykkt slíka afarkosti enda telja Grenjar ehf. meðal annars að bankinn hafi ekki gætt að trúnaðarskyldu sinni gagnvart Grenjum ehf. sem veðhafa og með því skaðað félagið.
Við þetta má bæta að hvorki Íslandsbanki hf. né skiptastjóri hafa nokkurn tíma tilkynnt Grenjum ehf. að þeir hyggist taka einhverju af þeim tilboðum sem fram hafa komið í eignir félagsins. Það er því rangt af hálfu skiptastjóra að halda því fram að endurreisn á Akranesi hafi ekki náð fram að ganga vegna þess að ekki náðist samkomulag við eigendur fasteignanna.
Grenjar ehf. ætla ekki að taka þátt í þeim leik að reyna að benda á einhverja sökudólga í málinu en tekur fram að fjölskyldan á bak við Grenjar ehf. hafði enga aðkomu að rekstri Skagans 3X ehf. frá því í lok árs 2021. Eini snertiflötur Grenja ehf. við málið er að félagið sér fram á verulegt fjárhagslegt tap vegna málsins þar sem eignir félagsins eru veðsettar Íslandsbanka hf. vegna skulda Skagans 3X ehf.
Grenjar ehf. ber þá von í brjósti að hægt verði að endurreisa rekstur Skagans 3X ehf. á Akranesi, enda skilja Grenjar ehf. mikilvægi þess fyrir starfsmenn og samfélagið á Akranesi að það takist. Það er því sárt að þurfa að sitja undir þeim uppspuna og óhróðri að Grenjar ehf. séu að standa í vegi fyrir endurreisn félagsins.
Öðrum ætti að vera jafn ljóst og okkur sem Akurnesingum að enginn byggir upp öflugt fyrirtæki í heimabyggð til þess eins að standa síðar í vegi fyrir endurreisn þess.