Káramenn tryggðu sér sæti í 2. deild með frábærum sigri gegn Magna

Lið Kára tryggði sér í gærkvöldi sæti í 2. deild Íslandsmótsins í knattspyrnu á næsta tímabili.

Káramenn sóttu Magna heim í gær í 3. deildinni þar sem að Skagamenn sigruðu 4-0 og fóru með 3 stig heim frá Grenivík. 

Kári er í efsta sæti deildarinnar þegar 2 umferðir eru eftir af Íslandsmótinu í 3. deild. Kári er með 46 stig eftir 20 leiki og er liðið öruggt með eitt af tveimur efstu sætunum sem tryggja sæti í 2. deild á næsta tímabili.

Káramenn eiga tvo leiki eftir í deildinni. Augnablik kemur í heimsókn laugardaginn 7. september og í lokaumferðinni þann 14. september mætir Kári liði Árbæjar. 

Sigurjón Logi Bergþórsson skoraði fyrsta mark Kára á 17. mínútu og staðan var 1-0 í hálfleik. Axel Freyr Ívarsson skoraði á 51. mínútu, staðan 2-0.

Mikael Hrafn Helgason bætti við þriðja markinu á 69. mínútu en hann kom inná sem varamaður einni mínútu áður en hann skoraði. 

Helgi Hrafn Bergþórsson tryggði 4-0 sigur með marki á 90. mínútu og skoruðu því bræðurnir Sigurjón Logi og Helgi Hrafn báðir í leiknum.