Íslenskir og norskir fjárfestar hafa hug á því að koma landeldi á laxi af stað á Grundartangasvæðinu.
Frá þessu er greint á vef Viðskiptablaðsins.
Fyrirtækið Aurora hefur sett af stað formlegt ferli þess efnis en gert er ráð fyrir að fiskeldið verði neðan við Katanestjörn sem er austan við verksmiðju Norðuráls.
Verkefnið er í umsagnarferli og því óljóst hvenær framkvæmdir geti hafist.
Í frétt blaðsins er sagt frá því að stefnt sé að því að framleiða fjórtán þúsund tonn af laxi árlega – og verða 44 ker á lóðinni.
„Þetta eru áform sem við erum búnir að vera að vinna að í töluverðan tíma,“ segir Helgi Guðmundur Sigurðsson, annar tveggja forvígismanna Aurora fiskeldis í viðtali við VB.