Nýtt íþróttahús við Jaðarsbakka mun breyta miklu hvað varðar aðstöðu fyrir skólaíþróttir og íþróttafélög á Akranesi – en áætlað er að það hús verði tilbúið til notkunar sumarið 2025.
Íþróttahúsið við Jaðarsbakka var tekið í notkun í lok ágúst árið 1988 en það hús var reist á þremur árum – og tóku margir sjálfboðaliðar þátt í því verkefni.
Skóla- og frístundaráð Akraness fjallaði á dögunum um hvað gera eigi við núverandi íþróttahús við Jaðarsbakka þegar nýja íþróttamannvirkið verður tekið í notkun. Í nýjustu fundargerð ráðsins kemur fram að skoða eigi af fullri alvöru að koma starfsemi Klifurfélags Akraness fyrir í hluta íþróttasalarins – og að gert verði ráð fyrir starfsemi félagsins í framtíðaruppbyggingu íþróttamannvirkja Akraneskaupstaðar.
Skóla- og frístundaráð mun vinna framkomnar hugmyndir að frekari nýtingu á íþróttahúsinu í samstarfi við forstöðumann íþróttamannvirkja og Íþróttabandalag Akraness.